Fara í efni

Burt með spilakassana

Birtist í Mbl
Þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum sem eiga fulltrúa á Alþingi standa að lagafrumvörpum um að banna svokallaða spilakassa. Áður hafa frumvörp þessa efnis verið flutt á Alþingi og hefur undirritaður verið meðflutningsmaður en frumkvæði átti Guðrún Helgadóttir fyrrverandi alþingismaður og á hún þakkir skilið. Ljóst er af viðbrögðum að vaxandi þungi er á bak við kröfuna um að spilakassar verði bannaðir. Þverpólitískur stuðningur er vitnisburður um að svo sé.

Sviðin jörð

Þess eru mörg dæmi að fólk spili frá sér allar eignir sínar og breiðir sviðin jörð þessarar ógæfu sig til margra aðstandenda. Samkvæmt upplýsingum SÁÁ voru 184 einstaklingar í meðferð á Vogi árið 1998 haldnir sjúklegri spilafíkn, þar af voru 74 undir 25 ára aldri. Að sögn lækna á Vogi er hér um að ræða aðeins brot þeirra sem ánetjast hafa spilakössunum. Umfang vandans er miklu meira en þessar tölur gefa til kynna. Enda kemur í ljós þegar gróðinn af spilavítisvélunum er skoðaður að veltan er orðin þvílík að augljóst er að margir koma þar að máli. Á árinu 1998 nam afraksturinn um einum milljarði króna. Ef kostnaður við kassana er ekki dreginn frá heldur litið á það sem úr kössunum kemur þá nálgast upphæðin tvo milljarða króna. Heildarveltan er enn þá meiri því talsvert fer í vasa þeirra sem spila á kassana. Þetta skýrir fíknina, vogun vinnur vogun tapar. Einhverjir hagnast en flestir sitja eftir með sárt ennið. En þessar tölur gefa vísbendingu um hve miklar upphæðir hér er um að tefla.

Tvenns konar fíklar

Með nokkrum sanni má segja að tveir aðilar hafi ánetjast spilakössunum, þeir sem haldnir eru spilafíkn og hinir sem háðir eru þeim sem tekjustofni. Þetta eru Háskóli Íslands og einnig aðstandendur Íslenskra spilakassa. Það eru Slysavarnafélagið/Landsbjörg, Rauði Kross Íslands og SÁÁ. Hinir síðastnefndu, fulltrúar SÁÁ, hafa sýnt mikinn og góðan samstarfsvilja við flutningsmenn frumvarpsins og lýst áhyggjum yfir ástandinu. Þá hefur fulltrúi Rauða Krossins óskað eftir fundi með flutningsmönnum frumvarpsins til þess að ræða þessi mál. Er það vel enda hafa flutningsmenn lagt á það áherslu að mikilvægt sé að finna þeim þjóðþrifastofnunum sem hagnast á þessum vélum aðra tekjustofna. Þetta kom fram í greinargerð frumvarpanna og nú hefur verið flutt þingsályktunartillaga þar sem beinlínis er lagt til að sett verði á laggirnar nefnd sem kanni með hvaða hætti sé hægt að bæta tekjumissinn sem hlytist af því að banna hagnað af spilavítum.

Syndaaflausn á sandi reist

Háskóli Íslands hefur því miður nokkra sérstöðu í þessu efni. Bæði er það svo að hann rekur svæsnustu vélarnar, svokallaða Gullnámu og Háspennu þar sem samtengdir eru fleiri kassar en einn og miklar upphæðir í boði. Ragnar Ingimarsson forstjóri Happdrættis Háskóla Íslands hefur tekið að sér málsvörn fyrir þessar vélar og gengur hann fram fyrir skjöldu í Morgunblaðinu 18. nóvember og gagnrýnir leiðara Morgunblaðsins sem að mínum dómi hafði tekið mjög víðsýna og ábyrga afstöðu í umfjöllun um ofangreind lagafrumvörp. Ragnar Ingimarsson segir að Happdrætti Háskóla Íslands hafi fengið heimspeking við Háskólann á Akureyri til að fjalla um málið og er svo að skilja á máli Ragnars að í umsögn dr. Kristjáns Kristjánssonar heimspekings hafi Háskóli Íslands fengið syndaaflausn. Ekki ætla ég að fjölyrða um þessa umsögn að sinni en hvorki gef ég henni né aðstandendum hennar háa einkunn þegar þessi mál koma til álita.

Tilgangurinn helgar ekki meðalið

Staðreyndin er sú að spilafíknin hefur leitt mikla ógæfu yfir mörg heimili á Íslandi og er nú mál að linni. Það er hins vegar mér og öðrum flutningsmönnum umræddra frumvarpa kappsmál að finna menningarstofnunum á borð við Háskóla Íslands og þjóðþrifastarfsemi sem rekin er af SÁÁ, Slysavarnafélaginu/Landsbjörg og Rauða Krossi Íslands traustan fjárhagslegan grundvöll. Þessar stofnanir eiga að geta staðið straum af starfsemi sinni á annan hátt en að hirða peninga upp úr vösum þeirra sem ekki ráða við gjörðir sínar sökum spilafíknar. Tilgangurinn helgar ekki meðalið.