Fara í efni

Samræmt átak gegn spilafíkn.

Birtist í Mbl
Á undanförnum þingum hafa verið lögð fram ýmis þingmál sem tengjast spilafíkn og fjárhættuspilum. Má þar nefna frumvarp til laga um að banna spilakassa. Þessi þingmál hafa ekki hlotið afgreiðslu.

Nú er leitað nýrra leiða til að stemma stigu við þessu alvarlega og vaxandi þjóðfélagsmeini. Um þær leiðir verður að nást almenn og breið samstaða. Þess vegna hafa þingmenn úr öllum flokkum á Alþingi ákveðið að leggja fram þingsályktunartillögu um að nú þegar verði skipuð nefnd með fulltrúum allra þingflokka og henni falið annars vegar að afla greinargóðra upplýsinga um útbreiðslu spilafíknar meðal Íslendinga, kanna umfang þeirra eigna og fjármuna sem viðkomandi hafa fórnað og leita úrræða til leysa vanda þeirra einstaklinga og fjölskyldna sem búa við þennan alvarlega sjúkdóm og leiða til að stemma stigu við frekari útbreiðslu hans. Þingmenn úr öllum flokkum á Alþingi standa að þingsályktunartillögu þessa efnis.

Áhugamenn boða til fræðslufundar

Því fer fjarri að baráttan gegn spilafíkninni sé einskorðuð við Alþingi. Fjöldi blaðagreina ber þess vott að margir eru reiðubúnir að leggja sitt af mörkum til að stemma stigu við spilafíkninni. Ánægjulegt er að áhugamenn gegn spilafíkn hyggjast standa fyrir fræðslufundi næstkomandi laugardag, 11. nóvember, í Ársal Hótels Sögu kl. 14:00 og hafa þeir boðið bandarískum sérfræðingi til að halda þar fyrirlestur. Fyrir fáeinum mánuðum buðu fulltrúar margra þeirra aðila sem reka spilakassa hér á landi til fundar þar sem erlendur fyrirlesari, einnig frá Bandaríkjunum, ræddi spilafíkn og rekstur spilavíta. Sá maður bar af þeim blak og gerði lítið úr skaðsemi spilafíknar. Mikilvægt er að umræða fari fram þar sem þessi mál eru skoðuð frá öllum hliðum og er það því sérstakt fagnaðarefni að hingað skuli fenginn aðili til að fræða okkur um spilafíknina frá sjónarhóli þeirra sem hún hefur leikið grátt.

Spilafíkn fer ekki í manngreinarálit

Ljóst er að um leið og spilasalir hafa verið opnaðir víðs vegar um landið og alls kyns getraunaleikir, sem gefa von um háar peningaupphæðir í vinning, hafa orðið algengari og spilakassar leyfðir til fjáröflunar fyrir ýmis samtök hefur komið í ljós að margir ánetjast þeirri spennu sem leikjum af þessu tagi fylgir og verða henni háðir. Þannig hafa margir hætt aleigu sinni, heimili og fjölskyldu í von um skjótfenginn gróða. Nú munu vera um 900 spilakassar á liðlega 370 stöðum á landinu.

Spilafíkn og ásókn í fjárhættuspil fer ekki í manngreinarálit og spyr ekki um stétt eða stöðu þótt ljóst sé að margir sækja í spilakassa og getraunaleiki með þá hugmynd að leiðarljósi að reyna að bæta annars lélega fjárhagsstöðu sína. Auk þess er fullyrt að þeir sem hafa þörf fyrir að flýja raunveruleikann af einhverjum ástæðum sækja ekki síður í fjárhættuspil en vímuefni og að misnotkun áfengis og vímuefna - og ásókn í fjárhættuspil af ýmsum toga fer oft saman.

Vandinn kemur okkur öllum við

Samkvæmt upplýsingum sem fram komu á síðasta ári má ætla að um 12 þúsund Íslendingar eigi nú við sjúklega spilafíkn að stríða. Í þeim hópi má ætla að séu um 4-5 þúsund ungmenni á aldrinum 16-20 ára. Einnig liggja fyrir upplýsingar um að sífellt fleiri sjúklingar sem koma til meðferðar vegna áfengissýki eigi einnig við spilafíkn að stríða. Spilafíkn er þannig óumdeilanlega orðin þjóðfélagsmein sem kemur allri þjóðinni við og sameinuð á þjóðin að bregðast við þessum vanda.