Þarf frekar vitnanna við?

Birtist í DV 20.02.2003
Í gærkvöldi var sýndur áhrifamikill sjónvarpsþáttur um spilafíkn í ríkissjónvarpinu. Þar fékkst staðfest sem andstæðingar spilakassa hafa haldið fram um nokkurt árabil: Spilafíknin hefur sært margan einstaklinginn og fjölskylduna holsári. Fólk hefur tapað aleigunni og gott betur. Fjölskyldur hafa sundrast og einstaklingar jafnvel tekið líf sitt, svo mikið hefur þeim þótt svartnættið fram undan.

Ég hef heyrt haft eftir glöggum manni að sá sé munur á spilafíkn og áfengissýki að spilasjúklingurinn geti lagt fjárhag sinn og jafnvel líf sitt í rúst á fimmtán mínútum; áfengissjúklinginn taki það hins vegar yfirleitt nokkrar vikur að ná lágmarki.

En það er einnig annað sem þarna greinir á milli. Einstaklingi sem ánetjast hefur spilafíkn er hætt við að brotna svo gjörsamlega niður að hann á í erfiðleikum með að horfast í augu við umhverfi sitt. Samfélagið er hins vegar sæmilega meðvitað um áfengissýkina og illar afleiðingar hennar. Áfengissjúklingur telur sig þess vegna réttilega gjaldgengan í samfélaginu þrátt fyrir áfengissýkina. Hann veit sem er að flestir eru meðvitaðir um vandann og taka honum sem slíkum. Þannig glatar áfengissjúklingur ekki allri sjálfsvirðingu sinni. Öðru máli gegnir um spilafíknina.

Spilasjúkum manni finnst samfélagið dæma sig vægðarlaust, það sé einfaldlega ekki meðvitað um að spilafíkn er fólki sem henni ánetjast óviðráðanleg - hún sé sjúkdómur og ekki síður ágengur og hættulegur en alkóhólisminn. Þetta á að verða okkur öllum til umhugsunar. Skilningsleysi samfélagsins getur leitt til óbærilegrar útskúfunar og beinlínis komið í veg fyrir að tekið sé á því alvarlega meini sem spilafíknin er. Að öðrum kosti verður hún að duldu innanmeini sem eitrar út frá sér. Í þetta fengum við ágæta innsýn í sjónvarpsþættinum í gær.

Fastir í öngstræti

Ég hef kynnst mörgu fólki sem hefur ánetjast spilafíkn og hef ég komist að þeirri niðurstöðu sem kann að koma einhverjum á óvart að margir í þeirra hópi eru sérlega vel gerðir einstaklingar, góðum gáfum gæddir og hugmyndaríkir; standa jafnvel öðrum framar að atgervi að öllu öðru leyti en þessum alvarlega bresti. En sköpunargáfan virðist hafa lent í farvegi sem hefur leitt þá inn í öngstræti. Í því öngstræti eru þeir síðan fastir.

Í ljósi þessara erfiðleika er ástæða til að fagna því þegar einstaklingar sýna þann mikla styrk sem Eiður Smári Guðjohnsen, knattspyrnumaðurinn góðkunni, sýndi fyrir fáeinum dögum þegar hann ræddi það opinskátt hvernig hann hefði tapað tugum milljóna í spilamennsku. Hann kvaðst nú ætla að taka á vandanum.

Ég er sannfærður um að gott fordæmi manna á borð við Eið Smára Guðjohnsen á eftir að verða mörgum einstaklingnum til mikillar uppörvunar.

Tekið ofan fyrir Eiði Smára

Það er gott, rétt og skynsamlegt að horfast í augu við vandann og leita hjálpar. Það gerði Eiður Smári. Þess vegna tek ég ofan fyrir honum. Hann á lof og virðingu skilið.

Eftir að DV birti fréttir af Eiði Smára í síðustu viku birti blaðið viðtal við Þórarin Tyrfingsson yfirlækni hjá SÁÁ sem staðhæfði að eitt hundrað manns bættust við á ári hverju í hóp þeirra sem leituðu til samtakanna. Þetta er há tala en hún er engu að síður aðeins brotabrot af þeim fjölda sem á við erfiðleika að stríða af þessum sökum.

Framleiðendur myndarinnar sem sýnd var í gær lögðu spurningar fyrir grunnskólanemendur um spilakassana. Þar kom fram að tæplega þriðjungur fimmtán ára unglinga spilaði að jafnaði einu sinni eða oftar í spilakössum í mánuði hverjum. Allstórt hlutfall af þessum fjölda ánetjast síðan spilakössunum. Þetta þykir mörgum án efa athyglisverð tölfræði.

Ekki bara tölfræði

Myndin í gær segir okkur hins vegar að tími sé kominn til að líta á þetta sem annað og meira en tölfræði eina. Þetta er alvarlegt félagslegt mein og löngu kominn tími til þess að skyggnast á bak við tölurnar og eygja einstaklingana og fjölskyldurnar sem að baki búa. Myndin í gær opnaði okkur slíka sýn á vandann. Ég efast ekki um að margir hafa hrokkið við.

En ætlum við að láta sitja við það eitt að býsnast? Er ekki kominn tími til aðgerða? Að sjálfsögðu er aðeins það eitt að gera að leggja bann við þessari fjárplógsstarfsemi; að meina Háskóla Íslands, Rauða krossinum, Landsbjörg og SÁÁ að gera út á sjúkt fólk í fjáröflunarskyni. Allt eru þetta stofnanir sem við virðum mikils, þykir jafnvel vænt um. Þess vegna er sárt að horfa upp á niðurlægingu þeirra. Alþingi ber að skera þær niður úr snörunni með fjárframlögum sem myndu vega upp á móti tekjumissinum þegar þær glata sinni gullnámu. Úr henni hafa þær árum saman fengið ómælt gull og hagnast verulega. En þrælum þeirra, spilasjúklingunum, sem reiða fram góðmálminn hefur náman hins vegar verið uppspretta harms og óhamingju. Nú er mál að linni og þótt fyrr hefði verið.

Fréttabréf