Kókdósin við Borgarnes

                   

                    Getur verið að við eigum eftir að venjast kókdollunni við Borgarnes? Getur verið að eftir nokkur ár fari okkur að þykja vænt um gömlu góðu kókdósina að Hamri? Ég held ekki. Þess vegna var ég svo ánægður þegar sagt var frá því í fréttum nýlega, að í tilefni þrjátíu ára afmælis Golfklúbbs Borgarness hefði Sparisjóður Mýrasýslu ákveðið að styrkja klúbbinn um eina milljón á ári. Ég hugsaði þá sem svo, að ef til vill myndi þessi fjárstyrkur verða þess valdandi að golfklúbburinn þyrfti ekki að reiða sig á auglýsendur í sama mæli og nú. Það er ekki aðeins hin risavaxna eftirlíking af kókdós, sem blasir við vegfarendum, sem keyra framhjá golfvellinum að Hamri, rétt utan við Borgarnes. Á síðustu vikum hafa sprottið upp eins og gorkúlur auglýsingaskilti um ágæti SS-pylsunnar og Bónussgríssins svo eitthvað sé talið. Víða erlendis tíðkast að nánast betrekkja vegkantana með auglýsingaskiltum og held ég að það sé mál manna að heldur sé þetta hvimleitt. Einkum á það við í fögru umhverfi eins og við Borgarnes. Leitun er á eins stórkostlegu bæjarstæði einsog einmitt að Hamri.

Um það gilda ákveðnar reglur, ef ég man rétt, hve nærri vegarbrún heimilt er að koma fyrir auglýsingaskiltum. það eru þó ekki reglurnar sem mér eru fyrst og fremst efst í huga á þessari stundu, heldur afstaða okkar almennt til þessarar tegundar auglýsinga, þ.e. auglýsinga úti í náttúrunni. Viljum við virkilega halda út á þessa braut? Sjálfur geri ég mikinn greinarmun, annars vegar á skiltum sem auglýsa tiltekna þjónustu í bæjarfélaginu sem þú ert í þann veginn að aka inn í, og hins vegar almennum auglýsingaskiltum við vegkantinn. Hið fyrra þykir mér góðra gjalda vert og er ferðalangnum til upplýsingar um það sem í boði er á þessum viðkomustað, en hið síðara er almenn auglýsingamennska sem að mínu mati á heima í öðru samhengi.

Fréttabréf