Fara í efni

Tvær bækur, Donald Rumsfeld og George Orwell

Nýlega fékk ég að gjöf tvær bækur. Af stríði heitir önnur þeirra og er gefin út af Nyhil útgáfunni, hin ber titilinn Ljóðin þín, eftir Harald S Magnússon. Gefendum kann ég hinar bestu þakkir. Ritstjóri fyrrnefndu bókarinnar er Haukur Már Helgason og er hann stórskemmtilegur penni eins og reyndar aðrir sem skrifa í þessa bók.  Hún ber þess merki að hún verður til í aðdraganda Íraksstríðsins. Þeir sem skrifa í bókina eru ekki stuðningsmenn þess stríðs – að einum undanskildum: Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra, Bandaríkjanna. Sem listamaður mun ljóðskáldið Donald Rumsfeld vera lítillætið uppmálað, hafði ekki einu sinni gert sér grein fyrir því að hann væri ljóðskáld. Þegar yfirlýsingar varnarmálaráðherrans voru settar í stuttar ljóðlínur kom hins vegar í ljós hvílíkur ljóðsnillingur hann er. Ljóð bandaríska varnarmálaráðherrans minntu mig á boðskap George Orwells í bókinni 1984. Stúdentaleikhúsið setti nýlega á fjalirnar 1984, ástarsögu í leikgerð Arndísar Dúnju Þórarinsdóttur og Þorleifs Arnar Arnarssonar sem einnig leikstýrði. Sýningin var mjög áhrifarík, vel upp sett og leikur prýðilegur.
1984 fjallar um valdið, hvernig það brýtur einstaklinginn niður, ekki aðeins með beinu líkamlegu og andlegu ofbeldi heldur einnig með því að innræta honum hvað sé gott og hvað slæmt, hvernig veruleikinn líti út, hvað hafi gerst í fortíðinni og hvað sé að gerast í nútímanum. Með því að stýra vitund okkar megi öðlast yfirráð yfir okkur. Þetta var kenning George Orwells. En gefum Donald Rumsfeld orðið í ljóðinu
Happenings:
You are going to be told lots of things.
You get told things every day that don´t happen.
It doesn´t seem to bother people, they don´t
It´s printed in the press.
The world thinks all these things happen
They never happened.
Everyone´s so eager to get the story
Before in fact the story´s there
That the world is constantly being fed
Things that haven´t happened.
All I can tell you is,
It hasn´t happened.
It's going to happen.
(28. febrúar 2003, á fundi í ráðuneytinu.)

Í bókinni Af stríði, er að finna auk efnis þeirra Hauks Más og Rumsfelds skrif eftir Arundhati Roy, Slavoj Zizek, Vanessu Badham, Steinar Braga, Viðar Þorsteinsson, Val Brynjar Antonsson, Reto Pulfer og Eirík Örn Norðdahl. Bókin er skemmtileg aflestrar. Haukur Már lætur hugann reika víða. Til dæmis veltir hann því fyrir sér hver hafi verið ömurlegasti dagur Íslandssögunnar. Kannski hafi það verið "þegar Ljósvetningagoðinn bauð að heiðnir skyldu þykjast kristnir. Þá var lögboðið að menn skyldu þegja yfir trú sinni. Í samræmi við þetta brást íslenskukennari minn í grunnskóla meinill við þegar nemandi spurði hvað hún hefði kosið í Alþingiskosningunum: "Það er þrennt sem maður spyr fólk aldrei um!" þrumaði hún yfir okkur: "Hverrar trúar það er, hvað það hefur í tekjur og hvað það kýs!" Hún gleymdi að nefna kynhneigðina. Það sem Ljósvetningagoðinn uppgötvaði undir feldinum og tafði hann þar var trúlega hvað þar var notalegt. Síðan hafa Íslendingar helst viljað liggja undir feldi eða sitja inni í skáp."

Haraldi S Magnússyni þakka ég einnig ljóðin. Þar er margt ágætlega sagt eins og í Ljóðin þín:

Ljóðin svifu
eitt af öðru
i
nn í hjarta þitt
og þar urðu þau
ljóðin þín

Bestur finnst mér húmorinn í örljóðum Haraldar, eins og í Vélinni.
Það var brotalömin í vélinni
sem brotnaði í sundur,
þá varð hún aflvana.

eða í Kýrauganu
Hann leit fránum augum
gegnum kýraugað,
en aldan færði það í kaf.

Og að lokum sending til pólitíkusanna:

Mótmæli
Bláir og grænir mynduðu stjórn.
Stjórnarandstaðan varð gul af öfund
og mótmælti því í fjögur ár.