Fara í efni

Foringjapólitík

Birtist í Fréttablaðinu 18.03.04.
Davíð Oddsson, forsætisráðherra, hefur ákveðið að láta skrifa sögu forsætisráðherra þjóðarinnar frá upphafi og fram á þennan dag – nánar til tekið frá 1. febrúar 1904 til 15. september árið 2004. Þann dag lætur Davíð Oddsson af embætti og við tekur Halldór Ásgrímsson. Þetta er eflaust stór dagur í lífi Davíðs Oddssonar. En er þetta rétt nálgun á skráningu Íslandssögunnar? Er þetta ekki nokkuð þröng nálgun - og sjálfhverf ? Alla vega verður ekki sagt að sjónarhornið sé vítt. Hvað þætti mönnum um að skrifuð yrði saga menntamálaráðherra landsins í stað þess að skrifa sögu menntamála? Nákvæmlega sama gildir um stjórnmálin. Það á að skrifa sögu þeirra og þróun og ef vinkillinn á að verða afmarkaðri er ekkert að því að skrifa sögu Stjórnarráðsins. Þar koma forsætisráðherrar að sjálfsögðu við sögu en á allt annan hátt en gerist þegar kastljósinu er beint að þeim einum.

 Allt stendur og fellur með kónginum

Það er ekki nóg með að þetta sé skrýtin söguskoðun. Hún er líka ósköp gamaldags og það í heldur neikvæðum skilningi. Þessi tegund persónusögu átti upp á pallborðið þegar íhaldssamir sagnaritarar fyrri alda sáu ekki sólina fyrir kóngum og öðrum slíkum; töldu valdamenn og svokallað fyrirfólk standa öllu öðru fólki framar, töldu jafnvel duttlunga kónga og keisara hafi ráðið gangverki mannkynssögunnar. Það er ekki að undra að það vildi henda margan kónginn og keisarann að fara að trúa því að allt stæði og félli með þeirra gjörðum. Ég ætla ekki að orðlengja að alla tíð hef ég haft miklar efasemdir um þessa sögusýn.

 Forsetinn segist vera kjörinn til valda

Eins varð ég hugsi við yfirlýsingar Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands þegar hann tilkynnti um framboð sitt í vikunni. Hann vill að forsetinn taki meiri þátt í þjóðmálaumræðunni en verið hefur. Forsetaembættið er ekki hefðarembætti segir Ólafur Ragnar. Forsetinn hafi völd, og sem slíkur eigi hann að taka þátt í þjóðmálaumræðunni. Þá væntanlega sem valdamaður - eða hvað? Mér skildist hugsunin vera sú að við kysum yfir okkur forseta til að tala fyrir okkar hönd. Þurfum við þá ekki að heyra rækilega hver viðhorf hans eru til alls milli himins og jarðar áður en hann er kosinn? Er þetta eftirsóknarvert?
Að sjálfsögðu á forsetinn að hafa skoðun og að mínu mati fer vel á því að frá forseta Íslands heyrist "mórölsk rödd". Ég hef hins vegar enga sérstaka þörf fyrir að hún gerist mjög hávær og mér finnst full ástæða til að spyrja af þessu tilefni hvert við séum yfirleitt að halda?

 Þjóðin á áhorfendapöllum?

Davíð Oddson lætur ríkið skrifa um sig sagnfræðirit og nú segist forsetinn valdamaður sem vilji geta talað hátt og svarað fyrir sig þegar á hann er ráðist – væntanlega af forsætisráðherranum.
Er verið að setja þjóðina upp á áhorfendapalla? Stendur til að við kjósum yfir okkur menn – valdamenn - til að tala yfir okkur og fyrir okkur?
Er ekki verkefnið að örva lýðræðislega umræðu í landinu – að sem flestir tali og taki þátt? Er foringjapólitík eins og mér þykir hér vera að ryðja sér til rúms til þess fallin?

 Þjóðaratkvæðagreiðsla

Á undanförnum árum hefur mér að minnsta kosti tvisvar þótt vera einboðið að efna hefði átt til þjóðaratkvæðagreiðslu um mál sem skiptu þjóðinni í fylkingar eftir allt öðrum línum en lágu innan Alþingis. Fyrra dæmið er aðild Íslands að EES, Evrópska efnahagssvæðinu. Hitt dæmið er að sjálfsögðu ákvörðun um að ráðast í Kárahnjúkavirkjun. Í hvorugt skiptið nýtti forseti rétt sinn til að skjóta þessum umdeildu málum beint til þjóðarinnar. Ólafur Ragnar Grímsson segist nú hlynntur því að beita þessu ákvæði meira en verið hefur þótt ekki hafi hann séð enn efni til slíks. En ef það yrði nú ofan á að beita þessu ákvæði, þá velti ég því óneitanlega fyrir mér hvort það væri til að auðvelda málið að forseti hefði áður tekið virkan þátt í þjóðmálaumræðunni um það. Er ekki heillavænlegra að liggja lægra en láta verkin tala; nýta margumræddan öryggisventil en láta þjóðina um lýðræðið? Þar væri fundið jafnvægi á milli forsetaembættis og þjóðar sem ég væri sáttur við.

                                                                                                Ögmundur Jónasson