Fara í efni

Tveir háðir spilafíkn – á hvorn á að hlusta?

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, skýrði frá því á Alþingi fyrir skemmstu, að nú væri verið að gera gangskör að því að setja reglugerð um spilakassa og var að heyra á ráðherranum að hann vildi taka á þessum málum af festu. Það er kominn tími til, því allar götur frá lagasetningu um spilakassa árið 1994, hefur ekki verið farið að lögum hvað þetta snertir því skýr ákvæði hafa verið um að slík reglugerð skyldi sett án þess að svo hafi verið gert.
Erlendis hefur talsvert verið um það rætt á hverju skuli tekið í slíkum reglum en augljóst er að aðgengi að spilakössum skiptir þar miklu máli. Annað er svo spurningin um hvers konar kassar eigi að vera leyfilegir. Á til dæmis að heimila samtengingu kassa eins og Háskóli Íslands gerir með Gullnámunni/Háspennu og hvað á að leyfa kössunum "að segja" við viðskiptavininn. Kassarnir eru nefnilega mismunandi áreitnir, þeir ganga mislangt í að hvetja spilarana að láta ekki staðar numið. Umgjörðin segir síðan sitt, Gullnáman/Háspenna gefur til dæmis ákveðna vísbendingu um hvað er í boði fyrir spennufíkla.

Rekstraraðilarnir eru háðir kössunum

Þeir aðrir en Háskóli Íslands, sem hafa tekjur af spilafíkn landsmanna eru Slysavarnarfélagið/Landsbjörg, Rauði kross Íslands og SÁÁ. Þessir aðilar mynda eins konar kassasamlag sem áður hét Íslenskir söfnunarkassar en heitir nú Íslandsspil. Samtals hafa þessir aðilar um 1,4 milljarð í hreinan hagnað af rekstri kassanna. Þetta kom fram í svari við fyrirspurn minni til dómsmálaráðuneytisns fyrir skömmu. Þetta eru miklir fjármunir og þar af leiðandi miklir hagsmunir í húfi, annars vegar fyrir spilarana sem margir eru haldni sjúklegri fíkn og hins vegar fyrrnefndir eigendur kassanna, sem fá hagnaðinn í sinn vasa. Með nokkrum sanni má því segja að báðir þessir aðilar hafi ánetjast fjárhættuspilum. Og nú er spurningin, á hvorn þeirra dómsmálaráðherrann muni hlusta þegar reglugerðin verður sett.  Forsvarsmaður Áhugamanna um spilafíkn, Júlíus Þór Jólíusson, segir spilakassana einkar varhugaverða því fyrir framan þá hefji spilafíkill yfirleitt göngu sína til glötunar.

Spilarar leggja allt sitt undir

Hann segir að menn geti tapað þrjú þúsund krónum á einni mínutu og hann kveðst þekkja þess dæmi að menn hafi tapað 800 þúsund krónum á einum degi. Forfallnir spilafíklar leggi allt sitt undir– allt sitt og sinna. Aðgengi að kössunum verði því að hefta. Á hitt þurfi ekki síður að líta, hvers konar kassa eigi að leyfa. Sjálfur tel ég spilakassa Háskóla Íslands verstu tegund kassa hér á landi og langt fyrir neðan virðingu Háskólans að hafa fé af fólki með brögðum eins og gert er með þessum kössum.
En hverjar eru röksemdir spilafíklanna sem standa vinningsmegin við borðið, þ.e. þeirra sem fá gróðann í vasann, og er þar vísað til forsvarsmanna HÍ og Íslandsspils? Þeir segja að fráleitt sé að einblína á spilakassa, menn tapi miklu hærri fjármunum í annars konar happdrættum og spilamennsku og benda þeir síðan á að þær stofnanir sem njóta gróðans gegni mikilvægu samfélagslegu hlutverki og vinni þjóðþrifaverk.
Í öllu þessu kann að vera einhver sannleikur. Hins vegar er það staðreynd að í spilakasössunum er að finna hvatann til að ánetjast fjárhættuspilum, en enginn getur mótmælt því að spilafíkn er alvarlegt þjóðfélagsböl. Hitt er svo rétt að spilasjúkt fólk rær á mörg mið til að leita fullnægingar við fíkn sinni. Ef það er hins vegar rétt hjá forsvarsmönnum spilavélanna að önnur form spilamennsku séu enn varasamari en spilakassarnir, þá þurfum við einnig að beina sjónum okkar þangað og gera allt það sem hægt er til að koma í veg fyrir að óprúttnir fjáraflamenn geri sér sjúklega hegðun fólks að féþúfu. Slíkt á hins vegar ekki að nota sem réttlætingu fyrir spilavélunum sem sannanlega hafa lagt líf fjölda manns í rúst í bókstaflegum skilningi.