Fara í efni

Ekki skylda gagnvart mér Halldór Ásgrímsson !

Haft var eftir Halldóri Ásgrímssyni, utanríkisráðherra og formanni Framsóknarflokkksins í morgunfréttum, að það væri skylda Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, gagnvart íslensku þjóðinni að sækja brúðkaup sonar Margrétar drottningar í Danmörku. Hvað veitir Halldóri Ásgrímssyni rétt til að tala á þennan hátt fyrir hönd íslensku þjóðarinnar? Ég segi fyrir mitt leyti að mér finnst þetta brúðkaup vera einkamál þessa unga fólks og óska því alls góðs eins og öllum öðrum. Þetta er hins vegar persónulegt fjölskyldumál og vilji vinir þeirra vera viðstaddir þennan atburð er eðlilegt að þeir geri það á eigin kostnað. Það er fráleitt að fulltrúi þjóðarinnar verði sendur í fjölskylduboð á kostnað skattborgara. Ég hef litla trú á því að ég sé einn um að hafa fengið upp í kok af þessu endalausa og fáfengilega kóngadekri, sem á ekkert erindi við nútíð og framtíð. Auðvitað á forseti Íslands að stunda sína vinnu hér á landi þegar verkefnin kalla og sinna kunningjafólki sínu í frítíma sínum einsog annað fólk.