Fara í efni

Prestar gegn stríði og misskiptingu

Séra Gunnþór Ingason, sóknarprestur í Hafnarfjarðarkirkju segir það hlutverk kirkjunnar að láta frá sér heyra um brennandi mál samtímans. Hún hljóti að ”andmæla ranglæti og yfirgangi og tillitslausri ásælni og græðgi er tendrar styrjaldarbál og mengar umhverfi og spillir siðum. Því ber að vara við slíku framferði í boðun og prédikun".

Í áhrifamikilli predikun, sem útvarpað var í morgun hnykkti séra Gunnþór Ingason á nýlegri ályktun Prestastefnu Íslands þar sem íslensk stjórnvöld eru hvött til þess að draga tilbaka stuðning sinn við stríðsreksturinn í Írak. Séra Gunnþór varaði einnig við vígbúnaði í himingeimnum og vísaði þar augljóslega til áforma Bandaríkjastjórnar í því efni. Hann sagði að skyldleiki væri með misskiptingu í heiminum og hernaðarbrölti stórvelda: “Aukin misskipting nægta og skorts er af sömu illu rótinni sprottin. Hún rýfur samhengi lífsins og vanvirðir það. Við finnum þegar fyrir því í okkar þjóðfélagi, þar sem fáeinir menn geta rakað til sín óheyrilegum auði jafnframt því sem öyrkjar eru margir á vonarvöl, bjargarlausir og örmagna... Misskipting sundrar og spillir og er  gróðrarstía glæpa, því samkenndin rofnar í kjölfari hennar enda leitað allra leiða til þess að afla fjár og jafnvel ekki skirrst þá við að eitra fyrir uppvaxandi lífi í siðblindri gróðavon.”

Séra Gunnþór Ingason kvað auglóst að stríðreksturinn í Írak byggði á fölsunum og ýkjum: “Og heróp lýðræðis og frelsis hefur þar drukknað og kafnað í blóði og kvalastunum þúsunda fórnarlamba stríðsins. En hergagnaframleiðendur hafa enn einu sinni sýnt fram á gildi nýjustu afurða sinna og horfa nú til þess fagnandi að fá loksins að vígvæða himingeiminn.” Séra Gunnþór vitnar í erkibiskupinn af Kantaraborg,  Rowan Williams, sem hafi varað við þessari herför og segði nú, að hún “hafi dregið úr heilindum í stjórnmálum og rýrt siðferðileg gildi og viðmiðanir.” Þetta hljóta að verða öllum umhugsunarverð orð.

Enda þótt þetta sé sérstaklega dregið út úr útvarpspredikun séra Gunnþórs Ingasonar frá í dag, kom hann víðar við m.a. í bókmenntum og listum og dróg hann upp sterka mynd til að sýna fram á samhengið í tilverunni. Undirtónninn var af trúarlegum toga. Vitnaði hann af þessu tilefni í Ólaf Elíasson myndlistarmann, sem nýlega hefði sagt að nútímalistamenn hefðu "áttað sig á hve samhengið skipti miklu máli" og Guðberg Bergsson, sem gert hefði að umfjöllunarefni “hið sýnilega í hinu ósýnilega.” Þá vísaði séra Gunnþór í verk eftir Ólaf Hauk Símonarson, Nínu Tryggvadóttur og Ólaf Jóhann Sigurðsson.

Mér er tjáð að aðgang að predikun séra Gunnþórs verði hægt að fá á vefsíðu kirkjunnar: kirkjan.is