Fara í efni

Hamingjuóskir til Ólympíumeistara

Nýlega setti ég pistil á síðuna undir fyrirsögninni: Afreksfólk örvar aðra til dáða. Tilefnið var frábær árangur íslenskara íþróttamanna á Ólympíuleikunum í Aþenu. Ég trúði lesendum fyrir því að ég legði meira upp úr almenningsíþróttum en afreksíþróttum en sannfærði þó sjálfan mig um að afreksíþróttirnar gætu verið til þess fallnar að örva aðra til dáða. Hafi Þórey Edda Elísdóttir, stangarstökkvarinn frækni, og Rúnar Alexandersson, fimleikameistari örvað áhuga fólks á íþróttum, sem allt bendir til að sé raunin, má segja að Kristín Rós Hákonardóttir, Jón Oddur Halldórsson og fleiri, sem nú síðustu daga hafa gert garðinn frægan á Ólympíuleikum fatlaðara íþróttamanna í Aþenu, hafi   bætt um betur. Þau hafa unnið mikla sigra í sínum greinum, Kristín Rós bætti eigið heimsmet, vann gull (nokkuð sem hún er ekki með öllu óvön, sbr. þrjú gull í Atlanta ´96) og silfur og Jón Oddur vann til silfurverðlauna. Þetta á eflaust eftir að verða mörgu ungu fólki hvatning. En það sem meira er: Þetta á eftir að hvetja fatlað fólk til dáða. Þau sem búa við fötlun þurfa að leggja harðar að sér en aðrir og eiga þau aðdáun og lof skilið. Hjartanlegar hamingjuóskir!