Fara í efni

Þegar trúarbrögðin kallast á við samtíðina

Pólitísk jólahugvekja er titill greinar eftir séra Gunnar Kristjánsson á Reynivöllum Kjós, sem birtist hér á heimasíðunni í dálkinum Frjálsir pennar. Greinin er í senn trúarleg og pólitísk eins og titillinn ber með sér. Séra Gunnar vill vekja okkur til umhugsunar og ábyrgðar, ekki aðeins kristna menn heldur alla menn : "Kirkjan í þessum heimi og þar með sérhver kristinn maður hefur miklu hlutverki að gegna. Og það á reyndar ekki aðeins við um kirkjuna heldur öll trúarbrögð og öll samtök sem vinna að góðum málum. Vilja ekki flestir vinna að framgangi hins góða, fagra og sanna? Í slíkri baráttu eiga kristnir menn að vera fremstir í flokki og leggja sig mest fram. Í sérhverri baráttu fyrir mannúð og mennsku, fyrir réttlæti og samvinnu, ekki hvað síst á alþjóðlegum grundvelli."
Séra Gunnar Kristjánssson fléttar  trúarlegar og heimspekilegar vangaveltur saman við brennandi málefni líðandi stundar. Hann lítur með hjálp Jólaguðspjallsins rúm tvö árþúsund til baka þar sem tókust á "valdið í hásætinu í höfuðborg hins forna heims, Rómaborg, og hið nýja veldi í heimi mannsins, sem á sér fáránlega táknmynd, jötu, sem gefur eitthvað allt annað til kynna en vald. Frásögnin gefur tilefni til hugleiðinga um valdið í þessum heimi, vald hinna voldugu annars vegar en á hinn bóginn beinist sagan að boðskapnum um kjarna málsins: incarnatio, hvernig Guð verður áþreifanlegur þar sem valdið virðist lengst undan."

Séra Gunnar segir frásögn guðspjallsins vera tímalausa, "hún er enn að gerast, hún gerist á hverjum degi í ýmsum myndum, m.a. þegar hið góða, fagra og fullkomna er fótum troðið, þegar hernaðarveldin hvert af öðru eira engu í blindri eftirsókn eftir meiri auðlegð og meiri yfirráðum. Við þurfum ekki að fara til Betlehem sögunnar fyrir tvö þúsund árum til að finna baráttu hinna smæstu við ofurefli valds og vopna, þar sem réttlæti og mannúð mega sín lítils. Sú saga er enn að gerast árið 2004. Óttinn svífur yfir heimsbyggðinni um þessi jól eins og svo oft áður."

Að sjálfsögðu er það Íraksstríðið sem er séra Gunnari hér efst í huga. Hann harmar framgöngu ríkisstjórnar Íslands og þar með aðild Íslands að hernáminu. Hann vitnar í áhrifaríka frásögn bandarísks blaðamanns af limlestum börnum, fórnarlömbum stríðsins, sem "hefst í hjarta mannsins og það þrífst á fordómum í hans sama hjarta..." Og hann heldur áfram: " Jólaguðspjallið afhjúpar hið fegursta sem til er í veröld mannsins þegar birtu af veröld Guðs leggur inn í heim hinna smæstu – en á hinn bóginn er myrkrið sem fylgir hinum grimma leiðtoga, sem svífst einskis í valdafíkn sinni, skammt undan, morðið á saklausum börnum vefst ekki fyrir honum. Og spurningin vaknar með lesandanum: Er þetta ekki saga um okkar heim sem kemst á sinn hátt nær kjarna málsins en fréttir og fréttaskýringar fjölmiðlanna?"

Ég hvet lesendur til að lesa Pólitíska jólahugvekju séra Gunnars Kristjánssonar.