Fara í efni

FRJÁLSHYGGJUMENN TIL HÖFUÐS RÚV OG "MEININGARMUNUR" MARKÚSAR

Markús Örn Antonsson, útvarpsstjóri kom fram í Kastljósþætti Sjónvarps í kvöld. Þar reyndi hann að halda uppi vörnum fyrir slæman málstað. Aðspurður hvort hann myndi taka tillit til undirskrifta 178 starfsmanna RÚV um að endurskoða fyrri ákvörðun um ráðningu fréttastjóra Útvarps. Ekki kvaðst hann myndi gera það þótt hann væri vissulega einn um sína skoðun innandyra í RÚV. Á það væri hins vegar að líta að aðeins væri um að ræða "meiningarmun". Þessi afstaða til starfsmanna Ríkisútvarpsins er útvarpsstjóra ekki samboðin. Hann þarf að skilja að starfsmönnum Ríkisútvarpsins er misboðið þegar þeir sjá allar faglegar og eðlilegar sanngirnisreglur við ráðningu starfsmanns brotnar.

Það er erfitt að skilja hvað vakir fyrir Markúsi Erni Antonssyni útvarpsstjóra. Hegðan fulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks þarf hins vegar engum að koma á óvart. Fulltrúar Framsóknar í Útvarpsráði hafa lýst því opinberlega yfir að þeir telji eðlilegt að ganga erinda flokks síns: " Þegar ég starfa í Útvarpsráði starfa ég þar sem fulltrúi Framsóknarflokksins og það er svo með alla þá sem þarna eru inni og það er yfirskin að segjast vera eitthvað annað að mínu mati. Þetta er pólitísk stjórn og ríkisstofnanir heyra með einum eða öðrum hætti undir hið pólitíska vald." Þetta var haft eftir Gissuri Péturssyni, fulltrúa Framsóknarflokksins í útvapsráði í Morgunblaðinu á sínum tíma og er það rifjað upp í Fréttablaðinu sl. laugardag. Þess má geta að blaðamaðurinn sem skrifaði umrædda Morgunblaðsgrein var Pétur Gunnarsson  núverandi varamaður Framsóknar í útvarpsráði! Þarna gerði Gissur minna úr sjálfum sér en efni standa til því sjálfur vildi hann hafa í frammi önnur vinnubrögð en hann þarna lýsti. Um það er mér kunnugt. Það er sitt hvað að vera skipaður til starfa af stjórnmálaflokki og annað að ganga erinda hans. Skipan stjórnmálaflokka í nefndir og ráð er yfirleitt með það að markmiði að tryggja að ákveðin almenn viðhorf komi að borði en engan vegin ætlunin að greiða götu þröngra sérhagsmuna stjórnmálaflokka. Það er skelfilegt að verða vitni að slíkri afbökun.

Framsókn hefur verið að gerast forstokkaðri í þröngri sérhagsmunagæslu í seinni tíð. Á Sjálfstæðisflokkinn nenna menn varla að eyða orðum í þessu samhengi. Hann hefur hins vegar ekki eins þrönga hugsun og Framsókn.  Sjálfstæðisflokkurinn setur yfirleitt til valda og áhrifa menn í ríkisstofnunum sem hafa það yfirlýsta markmið að eyðileggja ríkisrekstur. Það er aumt hlutskipti frjálshyggjumanna, sem stæra sig af andstöðu við ríkisrekstur og almannastofnanir, að hafa ekki meiri sjálfsvirðingu en svo að taka að sér stjórn og umsjá ríkisfyrirtækja þegar þeir sjá sér persónulegan hag í því. Nema þeir telji það vera sérstaka köllun að láta planta sér innanbúðar til að valda tjóni og usla og grafa þannig undan þeim ríkisstofnunum sem þeim er treyst fyrir. Er það ef til vill skýringin á framferði formanns útvarpsráðs, frjálshyggjumannsins Gunnlaugs Sævars Gunnlaugssonar í þessu og öðrum ámóta málum sem upp hafa komið? Hefur hann sett sér það takmark að eyðileggja RÚV? Hann hefur alla vega gefið menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, laglega fyrir markið. Byrjað er að skera menninguna utan af stofnuninni, Sinfónían burt. Frá því var skýrt í dag. Fyrsta skref að skilvirkum rekstri er okkur sagt! Og Markús Örn fagnar. Nýir og bjartir tímar eru í nánd sagði hann í Kastljósþættinum í kvöld og brosti. Ekki var það bros mjög ekta enda bætti hann því við að enn væri svolítið óljóst hvernig fjármagna eigi stofnunina þegar fram líða stundir.