Fara í efni

FJÖLMENNI HJÁ BSRB Í MUNAÐARNESI

Fullt var út úr dyrum á vel heppnaðri menningarhátíð BSRB í Munaðarnesi um síðastliðna helgi. Opnuð var sýning á verkum Önnu Hrefnudóttur, myndlistarkonu. Þorteinn frá Hamri, skáld, las úr ljóðum sínum, bæði birtum og einnig úr óbirtum handritum. Þetta var stund með skáldinu sem margir munu án efa geyma í minningu sinni. Þá söng Skagfirska söngsveitin af miklum krafti og við mikinn fögnuð viðstaddra. Eftir vel heppnuð skemmtiatriðin var boðið upp á veitingar.
Í upphafi hátíðarinnar flutti eigandi þessarar síðu ávarp, í krafti formennsku í BSRB. Hafði einn kórfélaga, Bjarni Stefán Konráðssson frá Frostastöðum í Skagafirði,  á orði að óvanalegt væri að heyra mig taka til máls án þess að pólitík kæmi þar nærri og hlyti þetta að vera mér mikil raun.
Kastaði hann þá fram eftirfarandi stöku:
Hér er gleði, hér er svall,
hér eru þegar vænir.
Og Ögmundur sá afbragðskall;
áfram Vinstri-Grænir.

Hálfs annars áratugar hefð er nú komin á Menningarhátíðar BSRB í Munaðarnesi og hafa margir helstu listamenn þjóðarinnar komið þar fram, bæði myndlistarmenn, söngfólk og annað tónlistarfólk, að ógleymdum skáldum og upplesurum. Nánar um Mennigarhátíðina má sjá Hér.