Fara í efni

VILJUM VIÐ LÁTA RUKKA OKKUR FYRIR AÐ KEYRA KJÖL?

Auðvitað er það góðra gjalda vert að vilja bæta samgöngur í landinu. Það er hins vegar hægt að fara mismunandi leiðir að því marki og þá geta markmiðin með samgöngubótum verið mismunandi.

Inn í þessa umræðu fléttast byggðasjónarmið, öryggi, hraði, mengun og sjónarmið útivistarfólks sem leggur mikið upp úr því að varðveita ósnortna náttúru; fólks sem til dæmis vill sem fæsta vegi á hálendinu og alls ekki uppbyggðar hraðbrautir.

Allt þetta kallar síðan á umræðu um forgangsröðun fjármuna. Landið er okkar allra og það skiptir máli að ákvarðanir séu teknar á eins lýðræðislegan hátt og kostur er.

Almennt ríkjandi sjónarmið hefur verið að bæta eigi samgöngukerfið þannig að fólk komist hratt og örugglega yfir. Þetta veldur því að íslenska vegakerfið er smám saman að taka á sig mynd hraðbrautakerfa eins og tíðkast víða erlendis. Þessu fylgja kostir og gallar. Þeim fer fjölgandi sem telja að versnandi samgöngur á sjó og í lofti ýti undir þessa þróun og að mál sé komið að efla að nýju sjóflutninga og flugsamgöngur svo hlífa megi vegakerfinu. 

All sérkennileg umræða hefur átt sér stað í fjölmiðlum undanfarna daga. Í dagblöðum og fréttatímum lýsa sjálfskipaðir vegagerðarmenn því yfir að þeir hyggist byggja veg hér og veg þar, í gær átti það að vera vegur  yfir Stórasand –  í dag er það vegur yfir Kjöl. Allt sé þetta að verða klappað og klárt. Þeir séu eiginlega búnir að ákveða þetta nokkrir félagar. Verið sé að safna hlutafé í Kjalarveginn. Fréttamenn orða ekki spurningar sínar lengur í viðtengingarhætti. Þeir telja sig vera að ræða við fulltrúa valdsins og spyrja beint út hvenær vegirnir verði opnaðir. Þeim er reyndar vorkunn því samgönguráðherrann hefur dúkkað upp í fréttatímum til að lýsa því yfir að sér lítist vel á ráðslagið. En er einkaframkvæmd í samgöngukerfinu einkamál? Þarf Sturla samgönguráðherra ekki að ræða málið á Alþingi? Og síðan hvenær var valdið til ákvarðana fært yfir á hlutabréfamarkað? Þessir nýju vegagerðarmenn Íslands telja sig þess umkomna að ráða vegagerð í landinu fyrir hönd okkar hinna. Takist þeim að safna nægilegu hlutafé til að hefjast handa sjá þeir ekkert í vegi fyrir framkvæmdum. Síðan á að rukka landsmenn. Að sjálfsögðu verður þetta ekki ókeypis. En er það augljóst mál að við séum tilbúin að borga brúsann? Og er það augljóst að við viljum láta umbreyta hálendisvegunum yfir í uppbyggðar hraðbrautir til að koma fólki og kornflekspökkum hraðar á milli tveggja punkta? Gæti verið að við því yrði einhver fyrirstaða að menn láti rukka sig fyrir að keyra Kjalarveg?