Fara í efni

GÁTA BERGÞÓRU OG SPURNING TIL OKKAR

Bergþóra Sigurðardóttr, læknir,  birtir í dag athyglisverða grein hér á síðunni í dálkinum Frjálsir pennar. Greinin ber fyrirsögnina Náttúra á heimsvísu. Bergþóra vill greinilega vekja okkur til vitundar um þau verðmæti sem Ísland býr yfir.
Bergþóra setur fyrir okkur gátu, greinilega til að kveikja með okkur áhuga. Hún spyr hvaða landi hér sé verið að lýsa: “Til að gera ykkur forvitin sleppi ég staðarnöfnum." Eldfjöll landsins eru eitt af stórkostlegustu eldfjallasvæðum jarðar, þar sem bæði er um að ræða mörg eldfjöll á litlu svæði og mörg virk eldfjöll og einnig fjölbreytni jarðminja tengda eldstöðvum. Það eru fimm eldgosasvæði sem í sameiningu standa undir viðurkenningu landsins á heimsminjaskrá. Auk jarðfræðiþáttanna býr svæðið yfir sérstakri fegurð og fjölda villtra dýra." Árið 2001 var sjötta þjóðgarði landsins bætt við á heimsminjaskrá. Þar var lögð áhersla á "samspil gjósandi eldfjalla og jökla, sem mynda síbreytilegt og mjög fagurt landslag."  Þar er líka dalur kenndur við Geysi, annar stærsti hveradalur í heimi. Virku eldfjöllin eru 29 af um 200. Þau eru keilur eða hryggir eins og Hekla. Þau hæstu með hvíta kolla."
Síðan segir Bergþóra að Ísland státi “af mun meiri breytileika í jarðmyndunum heldur en þetta landssvæði, sem er á heimsminjaskrá."Ísland er óvéfengjanlega eitt af merkustu eldfjallalöndum jarðarinnar. Landið er allt hlaðið upp í eldsumbrotum. Enn er þriðjungur þess virkt  jarðeldasvæði og ekki aðeins eitt af þeim stórvirkustu á allri jarðarkringlunni heldur eitt hið fjölbreytilegasta um eldvirkni." Þannig komst Sigurður Þórarinsson að orði í Náttúrufræðingnum 1968 í grein um jarðeldarannsóknarstöð á Íslandi. Hann sagði einnig að íslenska "hryggjarstykkið" í Miðatlantshryggnum væri aðgengilegast til rannsókna. Þar eru líka mestu eldsumbrotin. Þess vegna er Ísland til.”
Bergþóra minnir okkur á að Ísland búi  yfir mikilli auðlegð í náttúru landsins .Og hún spyr: “Erum við tilbúin að axla ábyrgð á þeirri auðlegð?”
Ég hvet ykkur til að lesa grein Bergþóru. En hvert skyldi vera svarið við gátu Bergþóru? Hvert skyldi vera landsvæðið sem hún lýsir í grein sinni?
Síðan er það stóra spurningin sem Berþóra Sigurðardóttir beinir til okkar. Erum við tilbúin að axla þá ábyrgð sem fylgir því að varðveita til frambúðar auðlegð Íslands? 
Þetta eru spurningar sem við verðum að taka alvarlega í ljósi þeirra áforma sem núverandi stjórnvöld hafa á prjónunum varðandi virkjanir í þágu stóriðju.

Eldfjallalandið sem Bergþóra fjallar um, mun vera Kamchatka. www.unesco.org/whc/sites/765.htm