RÉTTURINN TIL VATNS - HVERNIG SKAL HANN TRYGGÐUR?
Birtist í Morgunblaðinu 03.10.05.
Um síðustu helgi stóðu sjö samtök og stofnanir að ráðstefnu
um vatn undir yfirskriftinni Vatn fyrir alla. Samhliða
þessari ráðstefnu gáfu samtökin BSRB, Landvernd,
Náttúruverndarsamtök Íslands, Þjóðkirkjan, Kennarasamband Íslands,
MFÍK og SÍB út sameiginlega yfirlýsingu til að vekja athygli á
mikilvægi vatns og sérstöðu. Morgunblaðið gerði þessari ráðstefnu
mjög góð skil og í leiðara blaðsins 1. nóvember er fjallað um hana
og vitnað í yfirlýsinguna sem samtökin sjö standa að.
Í yfirlýsingunni er bent á að þótt enginn vatnsskortur sé á Íslandi
sé staðan önnur víðast hvar í heiminum. Gnótt vatns hér á landi
gefi því ekki tilefni til skeytingarleysis af okkar hálfu. Þvert á
móti beri okkur að færa lagaumgjörð um vatn í þvílíkan búning að
hún tryggi rétta forgangsröðun varðandi vatnsvernd og nýtingu og
geti verið öðrum þjóðum til fyrirmyndar.
Vatnið í stjórnarskrána
Leiðarahöfundur Morgunblaðsins vekur athygli á því að
fyrrnefndir sjö aðilar sem að ráðstefnunni og yfirlýsingunni stóðu
- fleiri aðilum gefst nú kostur á að gerast aðilar að
yfirlýsingunni - vilji að sett verði í stjórnarskrá ákvæði um
skyldur og réttindi stjórnvalda og almennings, sem taki til
réttinda, verndunar og nýtingu vatns.
Í leiðaranum er vitnað í tvo af fyrirlesurum ráðstefnunnar, þá
Nigel Dower, kennara í þróunarsiðfræði við Háskólann á Akureyri sem
fjallaði um ýmis siðfræðileg álitamál í þessu sambandi og Pál
H. Hannesson, alþjóðafulltrúa BSRB sem fjallaði um reynsluna af
einkavæðingu vatns. Í framhaldinu segir í leiðara Morgunblaðsins:
"Tilgangur einkavæðingar er fyrst og fremst að tryggja
neytendum betri þjónustu og kjör með tilstuðlan samkeppni, ekki að
færa einokun frá einni hendi yfir á aðra. En það hlýtur einnig að
vera mikið álitamál hvort hægt sé að einkavæða auðlind á borð við
vatn og má yfirfæra þá umræðu yfir á umræðuna um auðlindir hafsins
og spyrja hvort ekki sé rétt að líta á vatn sem þjóðareign. Nú
stendur yfir nefndarstarf um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Rétt
er að við þá endurskoðun verði áskorunin, sem kemur fram í
yfirlýsingu félagasamtakanna fyrir helgi um vatn fyrir alla, tekin
til alvarlegrar skoðunar. Þótt á Íslandi sé gnægð vatns verða
Íslendingar að sýna að þeir kunni að umgangast þessa mikilvægu
auðlind af virðingu og alúð."
Hvers konar löggjöf um vatn?
Það er sérstök ástæða til að fagna þeirri afstöðu sem þarna
birtist. Ekki eingöngu vegna þess að tekið er undir það sjónarmið
að rétturinn til vatns kunni að eiga heima í stjórnarskrá Íslands,
heldur ekki síður vegna hins að spurt er hvort yfirleitt sé
rétt að fela markaðsöflunum forræði yfir vatninu. Því miður hafa
verið stigin skref í þessa átt með lagasetningu á undanförnum árum
og nefni ég þar sérstaklega vatnsveitulögin sem samþykkt voru í
fyrra. Verður fróðlegt að sjá hvað stjórnvöld hugsa sér í
framhaldinu með boðuðum vatnalögum, en frumvarp iðnaðarráðherra sem
kynnt var s.l vor og hlaut mikla gagnrýni umsagnaraðila var sem
betur fer dregið til baka, en von er á því á nýjan leik á næstu
vikum og full ástæða til að halda vel vöku sinni
Nú ætla ég ekki að lesa meira í leiðaraskrif Morgunblaðsins en efni
standa til enda vel kunnugt um jákvæða afstöðu blaðsins til
markaðsvæðingar. Hitt er mikilvægt að öflugur fjölmiðill á borð við
Morgunblaðið skuli vilja stuðla að umræðu um þetta mikilvæga
málefni og vekja athygli á því að vatn hefur sérstöðu, er ekki eins
og hver önnur verslunarvara. Ef við á annað borð komumst að þeirri
niðurstöðu að aðgangur og eignarhald á vatni flokkist undir
mannréttindi, megum við aldrei fela það duttlungum markaðsaflanna á
hönd. Nánast alls staðar þar sem slíkt hefur verið gert, hefur það
gefist illa.
BSRB efnir til upplýstrar umræðu
Af þessu tilefni vil ég hvetja til þess að við skoðum rækilega
reynslu annarra þjóða af markaðsvæðingu vatnsveitna áður en við
stígum frekari skref í þá átt. Í tengslum við aðalfund BSRB sem
haldinn verður 18. nóvember kemur prófessor við háskólann í
Greenwich í Englandi og gerir grein fyrir rannsóknum sínum um þetta
efni. Við Greenwich háskóla er öflug deild sem hefur um árabil
stundað rannsóknir á þessu sviði, bæði hvað varðar skipulagsform í
vatnsbúskap og í raforkugeiranum og veitir David Hall þeirri deild
forstöðu.
Með því að bjóða David Hall hingað til lands vill BSRB leggja sitt
af mörkum til að efla umræðu um málefni sem snýr ekki aðeins að
okkur sjálfum heldur einnig komandi kynslóðum.
Ögmundur Jónasson, höf. er formaður BSRB