Fara í efni

DV GERIST MÁLSVARI HARÐLÍNU HÆGRI STEFNU

Það á ekki af DV að ganga. Tveir ritstjórar segja af sér vegna mótmæla í landinu út af stefnu þeirra við ritstjórn blaðsins. Nýir ritstjórar eru ráðnir. Og hvað gerist? Nýr skandall! Annar hinna nýráðnu ritstjóra, Björgvin Guðmundsson, reynist vera svo hægri sinnaður að áskrifendur blaðsins spyrja sjálfa sig hvort þeir séu staddir á málfundi hjá Heimdalli, félagi ungra sjálfstæðismanna, þegar þeir lesa ritstjórnarpistla hans. Leiðarinn í dag ber yfirskriftina, "Mikilvægi eignarréttarins." Þar veltir Björgvin Guðmundsson vöngum yfir hlutskipti fátækra ríkja. Hann segir það vera einfalt mál að skýra veraldargengi fátækra ríkja og vitnar óspart í hægri sinnaða hagspekinga: "...Ástæðurnar fyrir langvarandi fátækt og örbirgð ...er fyrst og fremst að leita í illa skilgreindum eignarrétti." Og Björgvin klykkir út í leiðara sínum með því að mæra kvótakerfið íslenska í sjávarútvegi: "Aukin velferð á Íslandi í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar", segir hann, "er ekki síst að þakka betur skilgreindum eignar- og nýtingarrétti í sjávarútvegi." Eitt mesta ránskerfi síðari tíma, kvótakerfið, er virðulega skilgreint á þennan hátt! Hvað skyldi fólki í sjávarbyggðum á Íslandi, sem varð að sjá af lífsbjörginni vegna þess að kvótinn var seldur úr byggðarlaginu, finnast um þennan málflutning?

Til hliðar við aðalleiðarann í DV skrifar Björgvin Guðmundsson síðan smáleiðara! Og viti menn, nú eru það ofurkjör stjórnenda, sem Björgvin vill verja: "Eigendurnir græða um leið og stjórnendur."
En þeir sem ekkert eiga Björgvin, græða þeir? Niðurlagsorð hins nýja ritstjóra í þessum mini-leiðara eru nokkuð athyglisverð. Þar fjallar minileiðarahöfundur um misnotkun ríkisvaldsins. Björgvin telur hana heyra sögunni til. "Hins vegar verða fáir efnaðir í dag í skjóli ríkisvaldsins og einokunar eins og áður fyrr. Þá gátu útvaldir makað krókinn vegna pólitískrar stöðu sinnar..." Já, er þetta liðin tíð? Eru menn búnir að gleyma Landssíma Íslands, sem pólitískir vildarvinir sukkuðu með, og hvað með bankana, sem voru nánast gefnir og hafa orðið pólitískum vildarvinum uppspretta auðs? Björgvin Guðmundsson ritstjóri dregur upp einfalda mynd. Sú hugsun sækir að mér að hún jaðri við að vera einfeldningsleg – alla vega einstrengingsleg. Ætli það sé ekki svo að þannig virki últrahægrihyggja á mig.