Fara í efni

NÝ “RANNSÓKNARSTÖД VILL AUKA SKILNING Á “EIGNARÉTTINDUM”

Að undanförnu hefur talsvert verið fjallað um nýútkomna skýrslu eftir hagfræðingana Tryggva Þór Herbertsson, Halldór Benjamín Þorbergsson og Rósu Björk Sveinsdóttur, sem ber heitið Ísland og alþjóðaviðskipti. Þar lýsa skýrsluhöfundar því blákalt yfir að “ritgerðin” “skrifuð til að tíunda kosti alþjóðaviðskipta...” Þetta getur varla flokkast sem sannfærandi fræðileg nálgun á viðfangsefnið sem einkum og sérílagi tekur til verslunar á sviði landbúnaðarafurða. Auðvitað er það kostur að menn tali tæpitungulaust um hlutina ef þeir á annað borð vilja gerast pólitískir. Og ekki verða skýrsluhöfundar ásakaðir fyrir að reyna að villa á sér heimildir. Á afdráttarlausari hátt verður varla lýst yfir aðdáun á hægrihyggju en gert er í þessum formálsorðum skýrslunnar: „Undanfarinn áratug hefur Ísland siglt hraðbyri í frjálsræðisátt. Fjármagnsflutningar hafa verið gefnir frjálsir, skikki komið á ríkisfjármálin og skuldir greiddar, ríkisfyrirtæki einkavædd, skattar á fyrirtæki lækkaðir og rammi hagstjórnar er orðinn eins og best verður á kosið. Á minnsta kosti einu sviði hefði þó mátt ganga hraðar fram – á vettvangi alþjóðaviðskipta.“

Auðvitað hefði mátt skrifa öðru vísi um afleiðingar hagstjórnar undangenginna ára þar sem fram hefði komið að Íslendingar væru orðnir ein skuldugasta þjóð í heimi með viðvarandi viðskiptahalla sem nú næmi um 15 af hundraði, vaxandi misskiptingu, hagur hinna best stæðu blómstraði á meðan þeir lægst launuðu og öryrkjar ættu sífellt erfiðara uppdráttar.

Þessar áherslur er hvergi að finna í skýrslu þremenninganna. Kannski er ekki við því að búast þegar haft er í huga að sú stofnun sem skýrslan er skrifuð fyrir heitir RSE, Rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál og var stofnuð haustið 2004 af Ragnari Árnasyni prófessor, Birgi Þór Runólfssyni dósent, Jóhanni J. Ólafssyni stórkaupmanni, Jónasi Haralz fyrrverandi bankastjóra, og Birgi Tjörva Péturssyni héraðsdómslögmanni.  Markmið RSE er, eins og segir á heimasíðu þessa þrýstihóps,  “að auka skilning á mikilvægi frjálsra viðskipta og eignaréttinda fyrir lýðræðislegt og framsækið þjóðfélag og hyggst ná markmiðum sínum með rannsóknum, fræðslu, útgáfu, ráðstefnum og annarri starfsemi.”

Þar segir einnig að RSE sé “sjálfstæð og óháð stofnun” og ekki “bundin við stjórnmálaflokka, einstök framboð eða hagsmunasamtök” og sé miðstöðin rekin “fyrir frjáls framlög einstaklinga og fyrirtækja.”  Hefur miðstöðin greinilega fengið ágætis undirtektir hjá stórlöxum í atvinnulífinu, sem augljóslega telja hana hið mesta þarfaþing. Í fulltrúaráði RSE, sem “fer með æðsta vald um eignir, fjárhag og rekstur stofnunarinnar” sitja m.a. Ásdís Halla Bragadóttir, fyrrum aðstoðarmaður Björns Bjarnasonar, fyrrum bæjarstjóri í Garðabæ og forstjóri BYKO, Bjarni Ármannsson, bankastjóri Íslandsbanka Guðmundur Kristjánsson, Ingimundur Sigurpálsson, fyrrum bæjarstjóri í Garðabæ og formaður Samtaka atvinnulífsins, Jóhann J. Ólafsson, stórkaupmaður, Orri Hauksson, fyrrum aðstoðarmaður Davíðs Odddssonar og frkstj. hjá Símanum, Sigurgeir B. Kristgeirsson hjá Vinnslustöðinni, Rannveig Rist fyrrum stjórnarformaður hjá Símanum og forstjóri í álverinu í Straumsvík og Þorkell Sigurlaugsson frkvst. Þróunarsviðs Háskólans í Rvk.

Í rannsóknarráð RSE, sem “fer með æðsta vald um þau verkefni sem ráðist er í á vegum stofnunarinnar í þágu markmiða hennar” sitja Ragnar Árnason, Birgir Þór Runólfsson, Jónas Haralz, Hafliði Pétur Gíslason, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, Karl Axelsson, Sigurður Líndal, Þór Whitehead og Þórólfur Þórlindsson. (sjá nánar www.rse.is )

Ekki amast ég við því að áhugafólk um pólitík láti til sín taka. Ég tel engu að síður mikilvægt að rannsóknarstofnanir gerist ekki svo blindar í trúnni að þær gefi sér niðurstöður sínar fyrir fram einsog mér virðist höfundar skýrslunnar Ísland og alþjóðaviðskipti hafi gert. Þeir skrifa skýrslu “til að tíunda kosti alþjóðaviðskipta…”
Ég efast ekki um að þessi nálgun falli aðstandendum Rannsóknarstöðvar um samfélags og efnahagsmál vel en hvort slík skýrslugerð flokkist fremur undir pólitík eða hagfræði er svo önnur saga.