Fara í efni

BEÐIÐ SVARS Á ALÞINGI UM SÖLU BÚNAÐARBANKANS

Vilhjálmur Bjarnason, aðjunkt við Háskóla Íslands, hefur staðhæft, að skoðun á efnahagsreikningi þýska bankans, Hauck & Aufhauser, fyrir árið 2003 hafi leitt í ljós, að bankinn hafi ekki verið einn kaupenda Búnaðarbankans einsog fulltrúar seljanda bankans, þ.e. ríkisins, fullyrtu þegar salan fór fram. Einkavæðing Búnaðarbankans, forvera KB banka var sem kunnugt er afar umdeild enda færði hún nokkrum aðilum í hendur gífurleg verðmæti á spottprís. Margir þeirra, sem voru viðriðnir þessa sölu og hafa hagnast um himinháar upphæðir, eru jafnaframt nátengdir Framsóknarflokknum. Á Alþingi vísar forsætisráðherrann, sem jafnframt er formaður Framsóknarflokksins og viðskiptaráðherrann, sem einnig er úr Framsóknarflokki, öllum athugasemdum á bug og þar við situr, - eða hvað?
Nú er komin fram í þinginu fyrirspurn frá undirrituðum þar sem m.a. er farið fram á að upplýst verði um þá þætti í söluferli Búnaðarbankans, sem tengjast þessu afmarkaða máli.

Fyrirspurnin er svohljóðandi: 
 1.      Getur viðskiptaráðherra upplýst með óyggjandi hætti, m.a. á grundvelli upplýsinga sem aflað verði frá Fjármálaeftirlitinu hérlendis og sambærilegri stofnun í Þýskalandi, hvort þýski bankinn Hauck & Aufhauser var eins og haldið hefur verið fram meðal raunverulegra kaupenda og síðan eigenda Búnaðarbankans sem hluti af Eglu hf. þegar einkavæðingu Búnaðarbankans lauk, sbr. tilkynningu 16. janúar 2003?
 2.      Ef í ljós kemur að hinn erlendi banki var ekki meðal raunverulegra kaupenda og upplýsingar þar um voru rangar, hvaða afleiðingar mun það hafa í för með sér gagnvart:
                a.      öðrum bjóðendum í Búnaðarbankann sem gengið var fram hjá með vísan til hins erlenda banka sem þátttakanda í tilboði Eglu hf.,
                b.      einkavæðingarnefnd,
                c.      ráðherranefnd um einkavæðingu,
                d.      Kauphöll Íslands vegna rangrar upplýsingagjafar eða mistaka við eftirlit,
                e.      Fjármálaeftirlitinu vegna rangrar upplýsingagjafar eða mistaka við eftirlit,
                f.      Ríkisendurskoðun, sbr. skýrslu þeirrar stofnunar
um einkavæðinguna,
                g.      kaupandanum Eglu hf.?
Skriflegt svar óskast.

Nú er að bíða eftir svari ríkisstjórnarinnar og verður fróðlegt að fá það í hendur. Af þeim áhuga sem fjölmiðlar sýna þessu máli, má ráða að þeir muni fylgjast vel með þegar Valgerður Sverrisdóttir, bankamálaráðherra birtir þinginu svar sitt.

 

mbl.is sagði frá í dag: http://mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1186471