TRÚARBRÖGÐ EÐA LETI ?

Undanfarna daga hefur Fréttablaðið flutt fróðlegar fréttir úr raforkugeiranum. Miðvikudaginn 1. febrúar segir í fyrirsögn á forsíðu: DAGGJALD RAFORKU HEFUR HÆKKAÐ UM 106%. Í undirfyrirsögn segir nánar: Daggjald heimila vegna raforkunotkunar hefur tvöfaldast á tveimur árum. Forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur segir raforkulögin orsaka hækkunina. Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins segir flest fyrirtæki einnig greiða hærra verð og líkir ástandinu við samráð olíufélaganna.

Í fréttinni segir síðan m.a.: " Sveinn Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir að frá því að nýju raforkulögin tóku gildi sjáist dæmi þess að raforkuverð til fyrirtækja hafi hækkað um tuttugu til þrjátíu prósent. Flest fyrirtæki greiði hærra verð fyrir rafmagnið en áður." Vitnað er í Jóhannes Gunnarsson, formann Neytendasamtakanna, sem gagnrýnir verðhækkanir og segir að þeir Sveinn og Jóhannes séu sammála um að samkeppni um sölu á raforku sé ekki til staðar. Í niðurlagi frásagnar Fréttablaðsins segir: "Samkvæmt reikningi sem Fréttablaðinu barst frá íbúa í sérhæð á Langholtsveginum nam hækkunin fyrir orkunotkun í lok 2003 og svo 2005 ríflega fimmtán prósentum, þrátt fyrir að rafmagnsnotkunin hafi verið sex prósentum minni."

Daginn eftir, fimmtudaginn 2. febrúar, vísa talsmenn orkufyrirtækjanna því á bug á forsíðu, að um verðsamráð sé að ræða. Hins vegar segja þeir það vera staðreynd að "orkuveiturnar elta hver aðra í verði". Talsmennirnir segja að veiturnar beri allar meiri kostnað vegna raforkulaganna. Inni í blaðinu er síðan sláandi frásögn: Frjáls raforkumarkaður leiðir til hærra verðs hjá fyrirtækjum og einstaklingum: ENGINN HAGUR AF RAFORKULÖGUM. Forstjórar Norðurorku, Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur gagnrýna nýju raforkulögin en samkvæmt þeim er sala á raforku gefin frjáls. Orkuveiturnar bera allar hærri gjöld vegna breytinganna, Orkuveita Reykjavíkur þau hæstu eða 458 milljónir króna...forstjóri Hitaveitu Suðurnesja, Júlíus Jónsson...segir flutningskostnaðinn í raun skatt...Forstjóri Orkuveitu Húsavíkur, Hreinn Hjartarson, segir veituna þeirra greiða tvöfalt til þrefalt hærra verð fyrir tenginguna...Upphæðin sé ótrúlega há, um tólf milljónir í stað fimm...Franz Árnason, forstjóri Norðurorku, segir að hann sjái engan tilgang með nýju raforkulögunum. Hann þekki engan sem sé ánægður með lögin...Guðmundur Þóroddsson forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur tekur undir orð forstjóra Norðurorku og þekkir heldur engan sem sé ánægður með nýju raforkulögin. Hann og forstjóri Hitaveitu Suðurnesja vöruðu við breytingunum."

Það er ástæða til að þakka Fréttablaðinu fyrir þennan fréttaflutning. Það eina sem ég hef við fullyrðingar talsmanna orkufyrirtækjanna að athuga í frásögn blaðsins er að þeir gleyma Valgerði Sverrisdóttur, iðnaðarráðherra, þegar þeir segjast engan þekkja sem lýst hafi ánægju með lögin. Það hefur Valgerður nefnilega margoft gert. Það er kannski vegna þess að hún ein virðist vera þeim hæfileikum búin að sjá lækkun þegar aðrir sjá hækkun.
Nú er spurningin þessi: Munu þessar staðreyndir hreyfa við þjóðinni? Munu þær hafa áhrif á þingmenn sem stutt hafa markaðsvæðingu ríkisstjórnarinnar í raforkumálum?
Enn liggja fyrir frumvörp um að halda lengra út í markaðsvæðingarfenið. Ætlar stjórnarmeirihlutinn að halda áfram að samþykkja frumvörp orkumálaráðherrans? Ef svo er, þá leikur mér forvitni á að vita hvort valdi ofurtrú á að kerfisbreytingarnar séu til góðs þrátt fyrir afleiðingarnar - að menn séu slegnir einskonar trúarlegri eða hugmyndafræðilegri blindu - eða veldur einfaldlega leti? Getur verið að stjórnarmeirihlutinn nenni ekki að setja sig inn í málin og samþykki allt sem frá raforkuráðherranum kemur hugsunarlaust? Nú liggja staðreyndirnar á borðinu. Fróðlegt verður að fylgjast með því hvort kraftaverkið gerist; að stjórnarmeirihlutinn komist til meðvitundar.

Fréttabréf