Fara í efni

8. MARS: BARÁTTUDAGUR KVENNA

Dagurinn í dag er alþjóðlegur baráttudagur kvenna og er í tilefni dagsins efnt til ráðstefnuhalds og fjölda funda af hálfu kvennasamtaka og verkalýðshreyfingar. Þar má nefna ráðstefnu á Grand Hótel í Reykjavík, kl 11:45, sem Kvenréttindafélag Íslands, hreyfing launafólks og fleiri aðilar standa að undir yfirskriftinni, Konur og hnattvæðing – er heimurinn eitt atvinnusvæði? Á meðal þeirra samtaka sem stóðu að þessum fundi var BSRB, sbr. HÉR. Þá má nefna fund í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur, kl. 17:00 þar sem spurt er, Þróunaraðstoð – í þágu hverra? Að þeim fundi standa kvennasamtök, mörg samtök launafólks, þar á meðal BSRB, auk svo MFÍK, Menningar- og friðarsamtaka íslenskra kvenna, Öryrkjabandalagsins, Samtaka herstöðvaandstæðinga o.fl.
Þá má nefna fund á vegum Bríetar á Dubliners í Reykjavík kl. 20:00, þar sem meðal annars er lesið úr ræðu  baráttukonunnar Bríetar Bjarnhéðinsdóttur frá árinu 1887. Listamenn og stjórnmálamenn koma fram á þessum fundi, þar á meðal Kolbrún Halldórsdóttir, sem fellur undir báðar skilgreiningarnar svo og Drífa Snædal frá Kvennaathvarfinu. Drífa skrifar pistil hér á síðuna í dag þar sem hún segir meðal annars um jafnréttisbaráttuna: "Að lokum munum við öll hagnast á jafnrétti því eins og sagan sýnir eru það ekki bara konur sem njóta afraksturs jafnréttisbaráttunnar heldur samfélagið allt. Aldrei er meiri ástæða til að halda baráttunni áfram, styrkja samstöðuna og breyta ríkjandi gildum og hefðum. Ég óska öllum jafnréttissinnum til hamingju með daginn og óska okkur gæfu í hinni krefjandi byltingu sem ekki verður umflúin." Sjá nánar pistil Drífu HÉR.