Fara í efni

ASÍ OG ALÞÝÐUFLOKKUR 90 ÁRA - SAGAN ER OKKAR ALLRA

Rétt 90 ár eru nú liðin frá stofnun Alþýðusambands Íslands og Alþýðuflokksins og var efnt til hátíðarsamkomu í Ráðhúsi Reykjavíkur af því tilefni í dag. Ráðhúsið er aðeins steinsnar frá Bárunni, húsinu þar sem stofnfundurinn var haldinn 12. mars árið 1916.

Það var Samfylkingin sem efndi til samkomunnar og var talsverð áhersla á hinar sögulegu rætur hennar í gegnum Alþýðuflokkinn. Þetta er skiljanlegt en er engu að síður svolítið afvegaleiðandi fyrir þá sem vilja hafa sögulega yfirsýn. Í Alþýðuflokknum gamla áttu rætur fleiri flokkar en Alþýðuflokkurinn. Til sanns vegar mætti færa að nánast allir stjórnmálaflokkar sem stofnaðir voru á 20. öldinni og rekja rætur sínar til jafnaðarstefnu eða sósíalisma hafi átt afmæli í dag. Hinar sögulegu rætur eru nefnilega sameiginlegar og söguna eignar enginn einn sér, hún er okkar allra.

Þetta þótti mér koma skemmtilega fram í ávarpi Benedikts Davíðssonar, fyrrum forseta Alþýðusambands Íslands, sem minnti samkomugesti á að hann væri orðinn svo gamall í hettunni að hann hefði sjálfur átt samstarf við Ottó N. Þorláksson, einn helsta frumkvöðulinn að stofnun Alþýðusambandsins og fyrsta forseta þess. Þeir hefðu átt samstarf á vettvangi verkalýðsbaráttu en einnig hefðu þeir samtímis átt sæti í miðstjórn Sósíalistaflokksins. Benedikt lagði áherslu á þessar sögulegu víddir þegar hann beindi sjónum að samtíð og framtíð og sagði mikilvægt að á vettvangi stjórnmálanna yrði barist fyrir þeim hugsjónum og baráttumarkmiðum sem hin upprunalega jafnaðarstefna Alþýðuflokksins hefði hvílt á.

Það er rétt sem  Benedikt Davíðsson gaf í skyn í ræðu sinni að Alþýðuflokkurinn tók miklum breytingum í tímans rás og er ég hræddur um að mörgum frumkvöðlanna hefði brugðið í brún ef þeir hefði séð þær áherslur sem voru uppi í Alþýðuflokknum undir það síðasta, áður en hann lagði upp laupana í þann mund sem Samfylkingin var stofnuð. Hitt er svo annað mál að fólkið í Alþýðuflokknum varðveitti án efa upp til hópa og til hins síðasta, jafnaðarhugsjónina í hjarta sínu. Í þessari hugsjón – hinni sameiginlegu gömlu rót sósíalisma og jafnaðar - liggur von um samstarf á félagshyggjuvæng stjórnmálanna.

Sem formaður BSRB hef ég átt mikið samstarf við Alþýðusamband Íslands og á vefsíðu BSRB, færi ég sambandinu árnaðaróskir og baráttukveðjur í tilefni dagsins og eru þær ítrekaðar hér.