SJÓNARMIÐ ÞJÓÐVILJANS Á SKAGANUM OG ÁLVAKAN Í HLJÓMALIND

Ég hef fengið nokkur viðbrögð á ummæli mín á Alþingi í gær um hótanir Alcan um að loka álverinu í Straumsvík, yrði ekki farið að vilja álrisans um heimildir til stækkunar álversins. Ég byggði á ummælum Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra hvað þetta snertir. Hann kallaði þetta ekki hótanir en í mínum huga var augljóst að álrisinn hafði gert forsætisráðherra þjóðarinnar ljóst hvaða afleiðingar það myndi hafa yrði ekki farið að vilja hans.

Ýmsir hafa tekið allt annan pól í hæðina en ég gerði og má þar nefna ágætan fastan penna hér á síðunni, Helga Guðmundsson, en á ágætri heimsíðu sem hann rekur, Þjóðviljanum á Skaganum,   ( viðeigandi heiti á síðu hjá þessum fyrrum ritstjóra Þjóðviljans) segir hann: "Forsætisráðherrann atyrðir VG stöðugt fyrir að vera á móti álstefnunni og vilja bara gera "eitthvað annað". Kannski nú sé að skapast lag til að gera "eitthvað annað" með því að taka ALCAN á orðinu og segja: Elskurnar mínar. Því fyrr sem þið lokið því betra. Við höfum sjálf nóg not fyrir orku á því verði sem þið borgið." Og enn segir Helgi: "Álverið í Straumsvík er á herfilegum stað og hindrar eðlilega þróun byggðar í Hafnarfirði. Það stendur í jaðri bæjarstæðisins og íbúðabyggðin þrengir orðið að því eins og umsátursher. Í stuttu máli myndi engum heilvita manni detta í hug að setja niður nýtt álver á þessum stað. Eigendurnir vilja stækka og endurbæta en réttast væri að stöðva öll áform um stækkun eins og nú er talað um. Hvers vegna? Aðallega af tveimur afskaplega þýðingarmiklum ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að verksmiðjan er að verða eins og ólæknandi kýli á byggðinni í Hafnarfirði. Með því að leggja hana niður eða farlægja hana fæst dýrmætt byggingaland sem Hafnfirðingum veitir sannarlega ekki af (og höfn í kaupbæti). Í öðru lagi losna eitt - tvö orkuver til annarra nota ef slökkt er á kerjunum í Straumsvík." Sjá nánar HÉR.
Annar aðili sem fram hefur komið og fagnað yfirlýsingum Alcans eru aðstandendur
 "Ál Andvöku" sem ber yfirskriftina:
Gerum betur, Ísland nr 1.Hún verður haldin í dag og hefst klukkan 17:30 á Kaffi Hljómalind."

Í fréttatilkynningu frá aðstandendum Álvökunnar er staðhæft og spurt í senn:
"Alcan flýr land og lokar í Straumsvík ?
Fagnað verður þeim fréttum sem borist hafa um að álverinu í Straumsvík verði lokað á næstu árum ef þeir fá ekki að stækka við sig. Fagnað verður því tækifæri sem landanum býðst í kjölfarið til nýsköpunar í atvinnulífinu. 
Dagskrá:
Dofri Hermannsson flytur stutt ágrip um aðrar mögulegar leiðir í atvinnusköpun en álframleiðslu ...
Helena Stefánsdóttir talar stuttlega um aðalfund Alcoa sem hún var viðstödd á dögunum í New York, og sýnir stutt myndbrot frá viðtölum sem hún tók.
Þar kom m.a fram að Alcoa ætlar einnig úr landi ef að meirihluti þjóðar vill þá ekki. 
Í lok dagskrár verður hvatt til umræðu um nýsköpun í íslensku atvinnulífi þar sem gengið er út frá sömu ívilnunum og Alcoa hefur verið lofað, eins og

  • Skattafslátt

  • Afsláttum af fasteignagjöldum

  • 90% afslátt af stimpilgjöldum

  • ódýru raforkuverði (ódýrasta orkuverð í heimi).

  • Afslátt af fasteigna-og lóðagjöldum.

  • Ókeypis land

  • Ofl.

Virkjum hugann !
Eftir umræður og kynningu á niðurstöðum verða tónlistaratriði.
19:00 Þorsteinn Einarsson úr Hjálmum spilar"

Mínar málsbætur fyrir að vekja athygli á hótun Alcans um lokun eru af tvennum toga og nefndi ég þær við umræður á Alþingi í gær. Annars vegar er um að ræða stóran vinnustað sem hefur þýðingu fyrir þá sem þar starfa eða honum tengjast. Hins vegar er um það að ræða að þetta veitir okkur innsýn í þjóðfélag þar sem auðhringar ráða lögum og lofum. Inn í þá veröld stefnir ríkisstjórnin okkur. Í umræðum á Alþingi í gær sagði ég m.a. eftirfarandi: "Hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson hefur upplýst að álsamsteypan Alcan hafi haft í hótunum ef ekki yrði heimiluð stækkun á álverinu í Straumsvík. Talsmaður Alcan-samsteypunnar hefur hvorki viljað játa því né neita að orðsendingar þessa efnis hefðu farið á milli Alcan og íslenskra stjórnvalda en lagði áherslu á að engar hótanir hefðu átt sér stað. Það voru heldur ekki orð hæstv. forsætisráðherra Íslands. En auðvitað er í því fólgin hótun ef stjórnvöldum er gerð grein fyrir því að til álita komi að loka álverinu í Straumsvík ef ekki verði farið að vilja álfyrirtækisins. Straumsvík er stór vinnustaður og eðlilegt að menn leggi við hlustir þegar svona er talað. Það er gott að hæstv. forsætisráðherra skuli hafa upplýst þjóðina um samskipti stjórnvalda við álfyrirtækið af þessu tilefni. En þessi atburður sýnir okkur hins vegar hvar völdin koma til með að liggja í þjóðfélaginu með stefnu ríkisstjórnarinnar og þá ekki síst Framsóknarflokksins, að gera Íslandi háð álframleiðslu hvað varðar allt að þriðjungi efnahagsstarfseminnar. Er hæstv. forsætisráðherra sammála því mati að litlu efnahagskerfi eins og okkar sé betur borgið fyrir þá fjölbreyttri efnahagsstarfsemi en fáum fjölþjóðlegum auðhringum?..."
Út á þetta gaf forsætisráðherra lítið og sagði að um hefði verið að ræða eðlileg samskipti við Alcan og fráleitt að tala um hótanir í því samhengi. Ég þakkaði honum hins vegar fyrir að upplýsa um þessi samskipti: "Ég var einmitt að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að reiða þessar upplýsingar fram. Hann segir að þetta séu eðlileg samskipti, engar hótanir hafi átt sér stað. Auðvitað eru fólgnar í því hótanir þegar sagt er við ríkisstjórn Íslands að fari hún ekki að vilja álrisans komi hugsanlega til þess að álverinu verði lokað. En um hitt vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra: Er hann mér sammála um það að þetta sé alvarleg áminning til Íslendinga um að verða ekki háðir stórfyrirtækjum, stórum auðhringum eins og Alcan, og stefna ríkisstjórnarinnar gengur reyndar út á? Hér hefur verið talað um rafmagn til stækkunar álversins en það eru aðrir þættir. Í ágætri grein sem Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir sem skipar efsta sætið hjá Vinstri hreyfingunni - grænu framboði í Hafnarfirði ritar í Morgunblaðið í dag þá vekur hún athygli á því að það séu ekki einvörðungu þessir þættir sem kunni að koma til álita heldur einnig mengunarþættir. Verður íslensku ríkisstjórninni stillt upp við vegg að því leyti líka?"
Við þessu fengust engin svör og lýsti ég vonbrigðum yfir því: "Hitt finnst mér vera áhyggjuefni af hve mikilli léttúð og hve miklu alvöruleysi hæstv. forsætisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar tekur á þessum málum og hann svarar því ekki þegar þeirri spurningu er beint til hans hvort stefna ríkisstjórnarinnar um að gera þriðjung af efnahagsstarfsemi á Íslandi [háða álframleiðslu] feli ekki í sér hættur og hvort þetta sé ekki áminning um þær hættur þegar stórfyrirtæki, auðhringur á borð við Alcan setur okkur stólinn fyrir dyrnar á þann hátt sem hér hefur verið upplýst um."

 

Fréttabréf