Fara í efni

SJÓNVARP KENYA?

Þegar ég horfði á Kastljósið í kvöld leitaði hugurinn til Afríkuríkisins Kenya sem ég heimsótti snemma á níunda áratugnum. Þá var Daniel Arap Moi í góðum gír. Hann var einræðisherra og í fínum tengslum við fjölmiðla landsins. Það þurfti ekki einu sinni spunameistara til. Hann þótti alltaf spennandi.  Það eitt þótti fréttnæmt þegar Daniel Arap Moi ákvað að gróðursetja tré. Þann daginn var það fyrsta frétt í öllum fjölmiðlum Kenya.
Á Íslandi höfum við ekki einræðisherra. Þar höfum við forsætisráðherra, sem heitir Halldór Ásgrímsson. Hann hefur hins vegar stuðningsmenn og spunameistara sér við hlið. Þeir hafa það verkefni með höndum að tengja forsætisráðherra hringiðu fjölmiðlanna. Spunamenn Halldórs sátu á fyrsta bekk á fundi Framsóknarflokksins í Reykjanesbæ í kvöld. Þeir höfðu greinilega unnið fyrir kaupinu sínu í dag; talað Sjónvarpið inn á að fylgjast með fundinum í beinni útsendingu, sennilega á þeirri forsendu að þaðan væri að vænta stórkostlegra tíðinda. Svo reyndist ekki vera. Halldór sagði fundarmönnum og landsmönnum að hann hefði talað í síma við framkvæmdastjóra NATÓ, sem aftur hafði talað við Bush Bandaríkjaforseta. Niðurstaða samtalanna var sú að beðið yrði átekta! Heima í stúdíói voru tveir fyrrverandi pólitíkusar að ræða um framtíðina. Þetta var tilraun Kastljóss kvöldsins að vera með puttann á púlsinum!
Reyndar stóð Kastljósið sig vel í kvöld en það var ekki vegna umfjöllunar um Miðnesheiðarbrotthvarf Kana heldur vegna umfjöllunar um Psoriasis. Ég þakka Kastljósmönnum sem sinntu þessu verkefni og þá ekki síður fólkinu sem kom fram. Það bjargaði kvöldinu!