Fara í efni

SVONA GETUR MORGUNBLAÐIÐ EKKI LEYFT SÉR AÐ SKRIFA

Í Staksteinum Morgunblaðsins í dag er stjórnarandstaðan á Alþingi gagnrýnd harkalega: Þar segir m.a. : "Stjórnarandstaðan á Alþingi er í málefnalegri kreppu. Hún grípur hvert upphlaupsmálið á fætur öðru og reynir að gera sér mat úr því en í raun er lítið eftir því tekið, sem frá henni kemur. Hvað veldur? Skýringin er augljós. Stjórnarandstaðan hefur hvorki þor né kjark til þess að koma nálægt þeim grundvallarmálum, sem nú eru á döfinni og hafa verið síðustu árin. Sú var tíðin að Jón Baldvin Hannibalsson, þá formaður Alþýðuflokksins, fór um landið og spurði: Hverjir eiga Ísland. Stjórnarandstöðuflokkunum á Alþingi er að því er virðist alveg sama um það hverjir eru að eignast Ísland. Þeir hreyfa hvorki legg né lið til þess að gera athugasemdir við það að nokkrir viðskiptahópar eru að kaupa upp öll fyrirtæki í landinu í krafti þess ódýra lánsfjár sem streymt hefur inn í landið síðustu misserin í gegnum bankana og er nú til umræðu. Hvað veldur því, að arftakar jafnaðarmanna 20. aldarinnar hafa engan áhuga á þessari grundvallarbreytingu í samfélaginu og virðast ekki telja hana skipta nokkru máli?"

Hvaða endemis rugl er þetta? Hefur Morgunblaðið verið algerlega úti á þekju í stjórnmálaumræðu undanfarinna ára? Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur sett fram fjölda þingmála sem snúa að því að hemja markaðsöflin, koma í veg fyrir fákeppni, hvort sem er í bönkum og fjármálastarfsemi eða lyfjasölu. Margvíslega aðra starfsemi má nefna. Jafnan hefur þessu verið hafnað af stjórnarmeirihlutanum.

Morgunblaðið hefur vissulega oft tekið undir með VG þegar þessi mál hefur borið á góma. Það sem hins vegar greinir okkur frá ritstjórum Morgunblaðsins er að við viljum ekki láta staðar numið við það eitt að reisa fjármagninu lagalegar skorður eftir að því hefur verið gefinn laus taumurinn, heldur höfum við viljað byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í hann. Þess vegna höfum við reynt að koma í veg fyrir einkavæðingu almannaeigna, nokkuð sem lítið fór fyrir hjá hinum ágæta krataforingja, Jóni Baldvin Hannibalssyni, sem Morgunblaðið vill nú hefja til skýjanna. Ég man ekki betur en nokkuð vel hafi farið á með þeim Jóni Baldvin og Davíð Oddssyni þegar markaðsvæðingunni var hrundið af stað í stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks á fyrri hluta tíunda áratugarins.

Þær eignir sem fjármálamenn gína nú yfir hefur Sjálfstæðisflokkurinn, fyrst með stuðningi Alþýðuflokks og síðan Framsóknarflokks, fært þeim með einkavæðingu. Hver var afstaða Morgunblaðsins til einkavæðingar Pósts og síma? Hver var afstaða Morgunblaðsins til einkavæðingar bankanna? VG sagði að ríkisbanki væri nauðsynleg kjölfesta gagnvart einkaframtakinu. Og eftir sölu bankanna flutti VG frumvarp um aðskilnað á milli útlánabanka og fjárfestingarbanka til að koma í veg fyrir samþjöppun valds. Allt kom fyrir ekki – enginn stuðningur! Hver er afstaða Morgunblaðsins nú til einkavæðingar raforkugeirans, vatnsins, Ríkisútvarpsins, ÁTVR? Eru þetta kannski bara "upphlaupsmál" stjórnarandstöðu sem vill vekja á sér athygli?

Strangasta samkeppnislöggjöf í heimi er án efa sú bandaríska. Þar er kapítalisminn jafnframt óheftastur. Þetta virðist vera sú leið sem Morgunblaðið vill fara en reynslan sýnir að hún gengur ekki upp. Morgunblaðið vill að flest verði fært út á hinn svokallaða frjálsa markað. Þegar þangað er komið býsnast blaðið hins vegar gjarnan yfir eignarhaldinu – sérstaklega  ef það ekki er Morgunblaðinu þóknanlegt.

Um þetta efni og því tengt, hef ég skrifað fjölmargar greinar og tíni ég til hér nokkrar netslóðir, nánast af handahófi.

HÉR, HÉR, HÉR, HÉR