Fara í efni

FRUMVARP UM RÚV HF: ÓÚTFYLLTUR VÍXILL TIL FRAMTÍÐAR SEGJA STARFSMENN

Í dag var haldinn fjölmennur fundur starfsmanna Ríkisútvarpsins. Lögfræðingur BSRB, Erna Guðmundsdóttir, fór yfir frumvarp ríkisstjórnarinnar sem nú er til umræðu á Alþingi og gengur út á að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi. Á fundinum flutti útvarpsstjóri , Páll Magnússon, einnig ávarp svo og ég sem sótti fundinn sem formaður BSRB. Fulltrúar  BHM og Rafiðnaðarsambandsins sóttu einnig fundinn. 
Einkum voru það réttindamál starfsmanna sem voru til umræðu og gerðu starfsmenn Ríkisútvarpsins alvarlegar athugasemdir við frumvarp ríkisstjórnarinnar. Í ályktun sem samþykkt var samhljóða var harðlega gagnrýnt að þrátt fyrir að heildarsamtök starfsmanna hafi bent á mikilvægi þess að breyta frumvarpinu til að tryggja réttarstöðu starfsmanna hafi engar breytingar verið gerðar á frumvarpinu sem lýst var sem "óútfylltri ávísun til framtíðar".

Ályktunin fer orðrétt hér á eftir:
"Starfsmenn ríkisútvarpsins óska eftir skýrari upplýsingum frá stjórnvöldum um hvernig fyrirtæki stjórnvöld vilji búa til á grunni hins gamla Ríkisútvarps. Bent hefur verið á opin ákvæði í frumvarpinu og mismunandi áherslur ríkisstjórnarflokkanna í málefnum stofnunarinnar til margra ára. Þær virðast nú hafa endað í óútfylltri ávísun til framtíðar. Við teljum okkur vera í vinnu hjá þjóðinni og landsmenn eigi rétt á því að vita hvert stefni með fjölmiðilinn þeirra.

Starfsmenn gera alvarlegar athugasemdir að ekki liggi ekki enn fyrir hve miklu fjármagni nýja félagið á að ráða yfir í upphafi.

 Starfsmenn furða sig líka á því að ekki hafi verið tekið nokkurt tillit til umsagna sem bárust menntamálanefnd Alþingis. Spyrja má um tilganginn með að setja fólk í vinnu við slíka álitsgjöf.

Það er lágmarkskrafa að réttindi starfsmanna verði tryggð, sérstaklega fullur biðlaunaréttur, aðild allra starfsmanna að LSR og áframhaldandi aðild starfsmanna að núverandi stéttarfélögum innan RÚV. Starfsmenn RÚV hafa um árabil þolað láglaunastefnu og talið að réttindin, sem eru eign starfsmanna, myndu að einhverju leyti vega upp á móti lágu laununum.

Starfsmenn Ríkisútvarpsins hafa sýnt mikla þolinmæði á löngu og leiðinlegu breytingaskeiði stofnunarinnar. Það hefur verið von þeirra að betri tímar gætu runnið upp að því loknu. Eitt það versta sem fyrir getur komið er  áframhaldandi óvissa næstu árin, af því að ný lög hafi ekki verið nóg vel úr garði gerð. Starfsmenn skora á Alþingi að eyða óvissu um stofunina með skiljanlegum lögum sem duga."