Fara í efni

MISMUNANDI ÖRLÖG BÚIN: BBC OG RÚV

"BBC er, engu síður en heilbrigðiskerfið, inngróinn hluti af  bresku þjóðlífi. BBC er ætíð til staðar og öllum til afnota, stöðugt að reyna að ná í hæstu hæðir gæða. BBC þarf, engu síður en heilbrigðisþjónustan, að taka stöðugum breytingum svo því takist að starfa á eins markvissan hátt í framtíðinni og það hefur gert hingað til." Þetta segir Tessa Jowell, menningarmálaráðherra Breta í formála að skýrslu um framtíð breska útvarpsins BBC sem út kom fyrir réttu ári, í mars 2005 undir heitinu, Review of the BBC´s Royal Charter. A Strong BBC, Independent of Government.

Menningarmálaráðherrann breski minnir á að skýrslan um BBC sé hin sjöunda sinnar tegundar  frá því breska ríkisútvarpið var stofnað árið 1927. Reglulega hafi farið fram endurskoðun á starfseminni og þeim lagagrunni sem hún hvílir á. Margt hafi breyst, ekki síst á seinni hluta 20. aldarinnar. Þannig hafi BBC verið eina sjónvarpsstöðin til 1955 og eina löglega útvarpsstöðin fram til 1973. Frá 1997 þegar síðast hafi farið fram endurskoðun af þessu tagi, hafi sjónvarpsrásum fjölgað um helming og séu nú 400 talsins og frá sama tíma hafi útvarpsstöðvum fjölgað um 50% og séu nú um 300 talsins. Þá hafi aðgengi almennings að útvarps- og sjónvarpsefni aukist gríðarlega í margvíslegu formi. Internetið komi til með að bjóða upp á enn frekari möguleika þannig að fólk muni eiga þess kost að ákveða sína eigin dagskrá.

Hvað þýðir þetta fyrir BBC? "Þessarar spurningar urðum við að spyrja", segir hinn breski ráðherra menningarmála í formálsorðum sínum, "Hvers ætlast fólk til af BBC, nú þegar framboð á efni er eins mikið og raun ber vitni? Við komumst að þeirri niðurstöðu að mestu máli skipti að vita hver væri vilji eigenda BBC, þeirra sem borga brúsann, greiða reikningana. Við ákváðum að snúa okkur til þeirra."

Og áfram heldur Tessa Jowell: "Með skoðanakönnunum, með tilstilli rýnihópa, opinna umræðufunda, með hjálp internetsins fengum við sjónarmið þúsunda og aftur þúsunda. Skoðanir þessa fólks voru afar skýrar. BBC nýtur trausts og stuðnings milljóna. BBC er talið hafa hlutverki að gegna sem fréttamiðill og kjölfesta í upplýstu lýðræðissamfélagi. Hlutverk almannaútvarps nýtur skilnings og stuðnings. Og þótt fólk, milljónum saman, nýti sér og njóti alls þess sem ný tækni býður upp á lítur það svo á að BBC eigi framtíðina fyrir sér í heimi nýrrar fjölmiðlunar. Ef nokkuð er, þá er litið á almannaútvarp sem enn þýðingarmeira eftir því sem markaðsstöðvunum fjölgar."

Staða BBC er ekki óumdeild. Ráðherrann bendir á að sumum þyki stofnunin ekki nógu skemmtileg, of áþekk öðrum stöðvum, ekki svara kröfum ungs fólks nægilega vel, þá sé viðskiptalífið gagnrýnið á ýmsa starfsemi á vegum BBC, sem betur væri komin hjá markaðsfyrirtækjum og þannig mætti áfram telja.

Niðurstaðan er þessi, segir Tessa Jowell: "Ríkisstjórnin er meðvituð um stórkostlegt framlag BBC til þjóðlífs og menningar, heima og heiman. Við erum einnig sammála meirihluta Breta sem vilja að fjölmiðlunarveröld framtíðarinnar njóti áfram krafta BBC. Og við erum einnig sammála því að BBC þurfi að laga sig nýjum aðstæðum. Þjóðin þarf á BBC að halda til að halda uppi háum gæðum, stöðugri endursköpun þar sem nýjungum og  hæfileikaríku fólki er komið á framfæri svo þjóðin fái að kynnast sjálfri sér; en við viljum jafnframt  BBC sem sýnir öðrum stöðvum og framlagi þeirra virðingu."

Í skýrslu bresku ríkisstjórnarinnar eru settir niður fjórir meginþættir.

Í fyrsta lagi er skapaður friður um BBC í eins konar sáttmála til tíu ára en þá er ráðgert að næsta endurskoðun fari fram.

Í öðru lagi skal stofnunin áfram fjármögnuð með áskriftargjöldum. Þetta hefur annmarka segja skýrsluhöfundar en þeir telja þetta engu að síður enn vera skásta kostinn.

Í þriðja lagi á BBC að vera heimilt að færa út kvíarnar að vild hvað tækni snertir. Hvað efnistökum viðkemur, hins vegar, er því beint til stofnunarinnar að leggja megináherslu á það sem kallað er almannaútvarp (Public Service).

Í fjórða lagi er gert ráð fyrir stjórnkerfisbreytingum. Annars vegar skal vera framkvæmdastjórn og hins vegar nokkuð sem Bretar kalla Trust, sem í þessu tilviki mætti einfaldlega þýða sem útvarpsráð. Framkvæmdastjórnin á að vera ábyrg gagnvart þessu ráði sem síðan á að svara til ábyrgðar gagnvart þjóðinni. Hugsunin er sú að útvarpsráð verði ekki tæki ríkisstjórnarinnar hverju sinni heldur tengist almenningi og er það í samræmi við vinnuaðferð skýrsluhöfunda, sem áður segir, að leita til þjóðarinnar.

Allt þetta er óralangt frá því sem er að gerast hér á landi. Hér á sem kunnugt er að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi. Hlutabréfið verður sett undir einn ráðherra. Síðan mun kosið útvarpsráð og mun skipan þess endurspegla ríkisstjórnarmeirihluta á Alþingi hverju sinni. Útvarpsráðið ræður síðan útvarpsstjóra sem verður nánast einráður um mannahald og framkvæmd dagskrár. Ólíkt hafast þeir að menntamálaráðherrar Bretlands og Íslands.