Fara í efni

ÞORGERÐUR OG FÉLAGAR SETJI FRUMVARP UM RÚV HF Á ÍS


Umræður um frumvarp ríkisstjórnarinnar um að hlutafélagavæða Ríkisútbvarpið eru nú að hefjast fyrir alvöru í þjóðfélaginu. Þær eru löngu tímabærar. Því miður er sú hætta raunveruleg að ríkisstjórnin, af misskildu stolti, neiti að taka tillit til málefnalegrar gagnrýni á frumvarpið, og freisti þess að keyra það í gegnum þingið með offorsi fyrir þinglok. Þetta væri afar misráðið, ekki síst í ljósi þess að gagnrýnin fer vaxandi, er þverpólitísk og afar málefnaleg.
Um Ríkisútvarpið hefur ríkt víðtæk sátt í samfélaginu allar götur frá því það var sett á laggirnar árið 1930. Engin ríkisstjórn hefur leyfi til þess að rjúfa þá sátt án þess að hafa áður gefið góðan tíma til að leita lausna sem samstaða gæti orðið um.
Gagnrýnin á hlutafélagavæðingu RÚV kemur úr ýmsum áttum. Í dag birtast skrif þriggja manna sem allir gagnrýna frumvarp menntamálaráðherra. Einn situr á ritsjórastóli, annar er háskólakennari og hinn þriðji stjórnmálamaður. Þetta eru þeir Þorsteinn Pálssson, ritstjóri Fréttablaðisins, Birgir Guðmundsson, kennari við Háskólann á Akureyri og Össur Skarphéðinsson alþingismaður.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, hefur reynt að blása gagnrýni þessara manna og annarra út af borðinu á þeirri forsendu að gagnrýnin sé sett fram af annarlegum  hvötum. Þannig á það að heita að Þorsteinn Pálsson sé að verja hagsmuni þeirrar fjölmiðlasamsteypu sem blað hans er hluti af! Það er segin saga að jafnan þegar fólk kemst í rökþrot þá er brugðið á það ráð að dylgja um annarlega hagsmuni. Hvernig væri að menntamálaráðherra svaraði þeim rökum sem Þorsteinn Pálsson, Birgir Guðmundsson og Össur Skarphéðinsson hafa sett fram á frumvarp hennar.
Sjálfur hef ég í ræðu og riti komið á framfæri gagnrýni á umrætt lagafrumvarp en fátt hefur hins vegar verið um svör frá aðstandendum frumvarpsins. Einfaldlega er staðhæft að Ríkisútvarpinu muni vegna betur sem hlutafélagi en sem ríkisstofnun.
Helstu málsvarar frumvarpsins á Alþingi eru síðan þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem lagt hafa fram frumvarp um að Ríkisútvarpið verði einkavætt og selt og vísa ég þar í formann menntamálanefndar, Sigurð Kára Kristjánsson en hann ásamt Pétri H. Blöndal og Birgi Ármannssyni hafa talað fyrir frumvarpi þessa efnis. Það frumvarp er sennilega einhver sérkennilegasta tilraun til lagasmíðar sem komið hefur frá frjálshyggjumönnum fyrr og síðar. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að eftir afnám Ríkisútvarpsins fái pólitískt kjörið útvarpsráð í  hendur skattfé sem það ráðstafi til dagskrárgerðar. Ráðstöfun skattfjárins fari fram með útboðum en hið pólitískt kjörna útvarpsráð leggi mat á efnið, þar á meðal fréttaefni. Ekki gleyma þeir félagar öryggisþættinum, því einnig hann á að bjóða út! Þetta makalausa frumvarp kom til umræðu á yfirstandandi þingi og voru þeir Pétur og Birgir þá einir flutningsmenn. Áður hafði Sigurður Kári verið í hópnum en sennilega hefur þótt heppilegra að hann væri ekki á frumvarpinu að þessu sinni því sem formaður menntamálanefndar Alþingis fengi hann það hlutverk að sannfæra þjóðina um að ekki standi til að selja RÚV eftir hlutafélagavæðingu heldur hlú að því í hvívetna!  

Hér er slóð á frumvarp þeirra félaga. Og að neðan eru skrif þeirra Birgis Guðmundssonar, Þorsteins Pálssonar og Össurar Skarphéðinssonar frá í dag.  

Birgir Guðmundsson: Hlutverk og sjálfstæði

Framtíð Ríkisútvarpsins er nú til umræðu á Alþingi og setti Ögmundur Jónasson þingmaður nýtt ræðumet þegar hann talaði í málinu samfleytt í sex klukkustundir frá þriðjudagskvöldi til miðvikudagsmorguns. Ögmundur sagði í viðtali að hann liti á Ríkisútvarpið sem heilaga kú, kjölfestu menningar og fjölmiðlunar á Íslandi sem ekki mætti hrinda inn á markaðstorg afþreyingarinnar. Þorsteinn Pálsson, fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins og ritstjóri hjá stærstu einkareknu fjölmiðlasamsteypunni, kemur inn á þetta samspil menntunar eða menningarhlutverksins og afþreyingarinnar í leiðara í vikunni. Hann er ekki í vafa um nauðsyn ríkisútvarps eða almannaútvarps þótt áherslur séu e.t.v. aðeins aðrar en hjá Ögmundi þannig að augljóslega á almannaútvarp hljómgrunn vítt um hið pólitíska litróf.

Ágreiningur dagsins snýst því ekki endilega um hvort almannaútvarp, eða "útvarp í almannaþágu" eins og það heitir í frumvarpi menntamálaráðherra sé æskilegt, heldur frekar um einstaka þætti í útfærslu þess. Nú vill svo til að Íslendingar eru langt frá því einir um að hafa staðið í umræðum um nákvæmlega þessi atriði og auðvelt er að horfa til landanna í kringum okkur eftir fordæmum. Þannig hefur Evrópuráðið t.d. gefið út ábendingar til okkar líkt og annarra aðildarþjóða í þessum efnum. Má þar nefna svokallaða Pragyfirlýsingu, en þar er sú mikilvæga skilgreining sett fram að það sem ákvarðar hvort útvarp/sjónvarp sé almannaútvarp eða ekki ræðst af hlutverki þess, en ekki eignarhaldi eða rekstrarformi. Það þarf því ekki að vera samasemmerki á milli almannaútvarps og ríkisútvarps. Evrópuráðið hefur líka gefið út tilmæli þar sem áhersla er lögð á sjálfstæði almannaútvarps og að það verði að vera óháð viðskipta- og auglýsingahagsmunum ekki síður en stjórnmálahagsmunum. Það eru því þessi tvö atriði, hlutverkið og sjálfstæðið, sem nágrannalönd okkar og Evrópuráðið hafa lagt áherslu á í umræðunni um almannaútvarp. Önnur atriði s.s. rekstrarform, eignarhald, starfsmannastefna og uppbygging fyrirtækisins og staða þess á markaði eru síðan metin með hliðsjón af hvernig þau þjóna og styðja við þessi grundvallar­atriði.

Í frægri rannsókn sem McKinsey-fyrirtækið gerði fyrir BBC fyrir nokkrum árum á almenningsútvörpum í fjórum heimsálfum kom fram að í öllum aðalatriðum eru til þrjár tegundir almannaútvarpa. Í fyrsta lagi útvörp sem stefna að sérhæfingu á tilteknum sviðum (menningarlegum) til að réttlæta tilvist sína, en leggja lítið upp úr því að ná mikilli markaðshlutdeild. Í öðru lagi eru til stöðvar sem ganga mjög langt í markaðsáherslum og skemur í sérhæfingunni og eru í raun mjög svipaðar einkastöðvum. Dæmi um þetta gæti verið ítalska ríkisútvarpið RAI. Þriðji hópurinn er þarna einhvers staðar á milli, og væntanlega myndum við vilja flokka RÚV þar og þá að dagskrárstefnan hallaðist frekar að menningarstarfseminni en markaðsbundinni afþreyingu. Sú umræða snýst fyrst og fremst um hlutverk og þetta hlutverk er nokkuð ítarlega tíundað í frumvarpi menntamálaráðherra sem nú er rætt á þinginu.
Spurningunni um sjálfstæði útvarps í almannaþágu er hins vegar ekki svarað með eins skýrum hætti í frumvarpinu og má segja að það snerti bæði rekstrarformið og skipuritið í fyrirtækinu. Útvarpsstjóri verður hæstráðandi til sjós og lands, ræður og rekur alla starfsmenn og er æðsti yfirmaður dagskrárgerðar. Þessi sami maður verður jafnframt háður pólitískri stjórn (útvarpsráði) sem kosin er árlega á Alþingi. Þeir sem einhvern tíma sváfu í fyrstu gerðunum af vatnsrúmum - rúmum sem voru einn geimur og án skilrúma - vita hvílíkur öldugangur getur skapast við minnstu byltu. Það er ekki tilviljun að slík rúm hafa verið hólfuð niður! Að setja einn mann með þessum hætti yfir jafn fjölbreytta og stóra stofnun og RÚV er og hafa þar engin skilrúm eða hólf sem takmarka öldugang getur verið mjög varasamt fyrir sjálfstæði útvarpsins. Menn kunna að hafa ýmsar skoðanir á framgöngu fréttamanna í fréttastjóramálinu svonefnda en ljóst er að í grunninn treystu menn sér þá til að standa vörð um það sem þeir töldu vera grundvallaratriði ritstjórnarlegs sjálfstæðis. Það verður fólk að geta gert áfram.

Horfur eru á að umræður á Alþingi um RÚV-frumvarpið verði enn langar og hefur það sætt gagnrýni úr ýmsum áttum. En á meðan menn í einlægni ræða um hlutverk og sjálfstæði RÚV sem útvarps í almannaþjónustu, snýst umræðan um grundvallaratriði og eðlilegt er að gefa grundvallaratriðum þann tíma sem þau þurfa - án pirrings. Fréttablaðið, 07. Apríl 2006

--------

Þorsteinn Pálsson: Um hvað snýst Ríkisútvarpsdeilan?  Hver á rökleysuna?

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra hefur verið í hópi efnilegustu framtíðarleiðtoga í íslenskum stjórnmálum. Í forystugreinum þessa blaðs hefur verið gerður ágreiningur um frumvarp ráðherrans um að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag.

Í fréttum NFS á miðvikudagskvöld var ráðherrann beðinn um að svara þeirri gagnrýni. Svar ráðherrans var einfalt. Hann sagði: "Maður verður auðvitað að hafa það í huga að þarna talar og skrifar ritstjóri fjölmiðlasamsteypu sem er í mikilli samkeppni meðal annars við Ríkisútvarpið." Þar með var málið afgreitt af ráðherrans hálfu.

Af þessu tilefni er rétt að draga fram í hnotskurn um hvað er deilt í þessu máli og um hvað er ekki deilt. Ekki er deilt um það markmið að starfrækja metnaðarfullt menningarútvarp. Það er ekki deilt um að nota skattpeninga til þess að kosta þann rekstur að uppistöðu til. Þar að auki er ekki gerður ágreiningur um að heimila útvarpi sem rekið er fyrir skattpeninga að afla viðbótartekna að ákveðnu marki á auglýsingamarkaði þó að það gangi á svig við eðlilegar leikreglur markaðarins.

Ríkisútvarpið er rekið fyrir skattpeninga almennings. Um meðferð skatttekna og stjórnsýslu stofnana sem reknar eru fyrir skattpeninga gilda almennar reglur. Núverandi ríkisstjórn hefur skerpt þær og bætt á ýmsa lund. Þessar reglur lúta að því að allir sem fá greidd laun með skattpeningum búi við ákveðnar leikreglur að því er varðar ákvörðun þeirra. Um þá gilda sömu reglur varðandi öll réttindi og skyldur. Stofnanir sem reknar eru fyrir skattfé hlíta sömu reglum um alla stjórnsýslu og upplýsingaskyldu.

Reglur af þessu tagi eru settar til þess að tryggja jafnræði og gegnsæi og koma í veg fyrir misnotkun á skattpeningum almennings. Eina krafan sem sett hefur verið fram í forystugreinum þessa blaðs er sú að þessar meginreglur gildi um rekstur Ríkisútvarpsins eins og annarra stofnana sem kostaðar eru af almannafé.

Spurt hefur verið hvaða rök standi til þess að víkja frá þessum reglum í þessu tilviki en halda fast við þær í öðrum þar sem stjórnsýslan snýst um ráðstöfun skattpeninga og opinbera starfsemi í almannaþágu. Við því hafa ekki fengist önnur svör en menntamálaráðherra viðhafði í fréttum NFS.

Í svari ráðherra fólust dylgjur um að afstaða ritstjóra þessa blaðs réðist af ómálefnalegri hagsmunagæslu. Slíkar ásakanir er hvorki unnt að sanna né afsanna. Eini tilgangur þeirra er að vekja tortryggni og efasemdir um heilindi. Ásökunum af þessu tagi verður best svarað með spurningu, sem aðrir ættu fremur að svara en þeir sem deila.
Spurningin er þessi: Hvor málsaðili er líklegri til að byggja afstöðu sína á ómálefnalegum sjónarmiðum; sá sem vill viðhalda meginreglum um meðferð skattpeninga eða hinn sem leggur til að undanþága verði gerð í einu tilviki?

Í ljósi þeirra meginreglna sem gilda um meðferð skattpeninga almennings hefur því verið haldið fram á þessum vettvangi að rétt sé að breyta þeim ríkisstofnunum í hlutafélög sem byggja afkomu sína á sjálfsaflafé, en það sé rangt þegar reksturinn byggist á skatttekjum. Því hefur enn sem komið er ekki verið svarað með gagnrökum að þessi skýra aðgreining sé reist á ómálefnalegum sjónarmiðum. Við svo búið vegast því hér á rök og rökleysa. Hver á rökleysuna?
Fréttablaðið 07.04

--------


Össur Skarphéðinsson: Ómakleg árás Þorgerðar

Ég hlustaði agndofa á menntamálaráðherra svara gagnrýni Þorsteins Pálssonar, ritstjóra Fréttablaðsins, á frumvarp hennar um háeffun RÚV.

Þorsteinn Pálsson hefur með réttu gagnrýnt frumvarp hennar nokkuð harkalega - en málefnalega. Hann gerði það fyrst í leiðara á föstudaginn, og svo aftur í mergjuðum leiðara í gær.

Í leiðara gærdagsins sagði Þorsteinn, að annaðhvort væri undirbúningur frumvarpsins "í skötulíki eða ekki er allt með felldu um raunveruleg áform um að reka hér menningarútvarp og sjónvarp með nokkuri reisn..."

Þorgerður Katrín var spurð út í ummæli Þorsteins Pálssonar í fréttatíma NFS í gær. Svar hennar var svohljóðandi:

"Ég er algjörlega ósammála Þorsteini Pálssyni hvað það varðar og maður verður auðvitað að hafa það í huga að þarna talar og skrifar ritstjóri fjölmiðlasamsteypu sem er í mikilli samkeppni, meðal annars við RÚV."

Hvaða vitnisburð er varaformaður Sjálfstæðisflokksins að gefa þjóðinni um Þorstein Pálsson, með þessum orðum?

Í þeim felst að fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra þjóðarinnar sé þannig maður að gagnrýni hans á frumvarp hennar um RÚV byggist ekki á málefnalegum sjónarmiðum heldur sé hann að ganga erinda eigenda blaðsins. Hún er í reynd að segja að hann sé leigupenni Baugs, og skoðanir í leiðurum blaðsins beri ekki endilega að líta á sem málefnalegar skoðanir hans, heldur vörn fyrir hagsmuni eigendanna.

Ég starfaði með Þorsteini Pálssyni í ríkisstjórn. Ég hef bæði verið samherji hans og andstæðingur í stjórnmálum. Nú vita allir sem með honum hafa starfað að Þorsteinn Pálsson var einhver vandaðasti stjórnmálamaður síðustu aldar - og heiðursmaður á borð við Geir Hallgrímsson.

Getur stjórnmálamaður komist öllu lægra en Þorgerður Katrín í þessum ummælum sínum um fyrrum formann Sjálfstæðisflokksins? Hugsanlega hún - en ráðherrann verður þá að slá sitt eigið Íslandsmet.

Mér finnst ólíklegt að Þorgerður Katrín hafi gert sér grein fyrir hvað hún var í reynd að segja. En kannski ætti varaformaður Sjálfstæðisflokksins að taka upp þann sið að hugsa áður en hún talar?

Það væri allavega tilbreyting.

Af heimasíðu Össurar Skarphéðinssonar