Fara í efni

SLAGURINN UM ÞJÓÐLENDURNAR


Eflaust er erfitt að alhæfa um þau átök sem eiga sér stað í réttarsölum landsins um markalínur á milli eignarlands einstaklinga annars vegar og svokallaðra þjóðlendna hins vegar. Margir hafa stillt málum þannig upp að hér eigist við, annars vegar ríkisvaldið og hins vegar ábúandinn, bóndinn sem reyni að verjast ásælni ríkisvaldsins, sem geri tilkall til lands sem hann og forfeður og formæður hafa haft í sinni umsjá um langan aldur. Þegar málinu er stillt upp á þennan hátt hafa flestir samúð með "einstaklingunum".

En þetta er bara önnur hlið málsins. Einnig er hægt að líta á þessi átök sem togstreitu á milli almannahagsmuna og einkahagsmuna. Þessi hlið mála verður augljósari eftir því sem jarðir hafna í höndum auðmanna – sem síðan  reisa girðingar og merkja vegarslóða sem einkavegi. Þegar það síðan birtist okkur í ofanálag að átökin standa um margar fegurstu náttúruperlur landsins, skýrist það í hugum okkar margra hve mikilvægt það er að tryggja almannahaginn. Í kvöld birtist í fréttum að Hæstiréttur hefði kveðið upp úr um að Jökulsárlón væri almannaeign að mestu leyti!

Á meðan landið er nytjað af bændum – þess vegna leigt og selt – og hagnaðurinn rennur í þeirra vasa, er samúð okkar flestra með þeim. Þegar eignarhaldið er hins vegar komið á mölina, þangað rennur arðurinn – að ekki sé á það minnst þegar eignarhaldið er komið út fyrir landsteinana – er öll samúð rokin út í veður og vind.

Þá hugsar maður til framtíðar og vonar að dómstólar skilji að gamall einkaréttur getur aldrei verið hafinn yfir rétt þjóðarinnar til náttúru landsins.