"SVO LEGGJUM VIÐ TIL AÐ ÍBÚÐALÁNASJÓÐUR VERÐI LAGÐUR NIÐUR"

Alltaf er það fyrirsjánlegt hvað sendinefndir á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem koma hingað til lands að leggja okkur lífsreglurnar, hafa að segja. Það er eins fyrirsjáanlegt og nótt fylgir degi. Að þessu sinni var okkur sagt hve aðdáunarvert væri hve vel íslenska ríkisstjórnin færi með innlenda orkugjafa! Þetta er umhugsunarverð einkunnagjöf í ljósi þess hve umdeilt hefur verið að eyðileggja dýrmætar náttúruperlur til þess að geta boðið erlendum fjárfestum orku á stórlega niðurgreiddu verði. Síðast í dag fengum við fréttir af orkukaupanda í Noregi sem ætlar að flytja starfsemi hingað til lands - stækka járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði - vegna þess hve Íslendingar eru reiðubúnir að selja stóriðjufyrirtækjum orku á lágu verði - NB, stóriðjufyrirtækjum, ekki öðrum! Stórkostlegt!, segir sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Ég beið eftir ummælunum um Íbúðalánasjóð. Ekki létu þau á sér standa. Að hætti Cato gamla, rómverska stjórnmálamannsins, frá því í árdaga, sem endaði allar sínar ræður á að leggja til að Karþagó yrði jöfnuð við jörðu - klifa þessar sendinefndir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á því að allt sem er á skjön við hagsmuni fjármagnsins verði látið víkja. Og á þá leið var boðskapur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins orðaður í fjölmiðlum í dag: Mikilvægt er að Íbúðalánasjóður verði lagður niður hið allra fyrsta!

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn virðist gefa lítið fyrir hag neytenda en þeim mun meira fyrir hagsmuni fjármagnsins. Síðast komu þessir sérfræðingar, að því er ég best veit, um miðjan júní á síðasta ári. Einnig þá voru þeir samir við sig og vildu leggja Íbúðalánasjóð niður. Um þá heimsókn skrifaði ég hér á heimasíðuna og minnti á "að sérfræðingarnir, sem fara um heiminn með nafnspjöld Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Alþjóðabankans og OECD upp á vasann, eru fyrst og fremst pólitíkusar. Eflaust hafa þeir háskólagráðu í hagfræði. En þeirra sérfræði er pólitík. Við það væri í sjálfu sér ekkert að athuga ef þessir virðulegu erindrekar alþjóðafjármagnsins væru kynntir til sögunnar sem slíkir. Óskandi væri að næst þegar "sérfræðingar" koma frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að ráðleggja Íslendingum um stjórn efnahagsmála verði þeir kynntir í fjölmiðlum undir réttum formerkjum. Þá kunna ráðleggingar þeirra, til dæmis um að leggja niður Íbúðalánasjóð að fá annan hljóm."

Sjá nánar HÉR.

Fréttabréf