ÞAGAÐ UM LÚÐVÍK JÓSEPSSON: ÁSETNINGUR EÐA AULAHÁTTUR HJÁ MORGUNBLAÐINU?

Nýlega var fjallað um landhelgisdeiluna í blaðakálfi Morgunblaðsins. Umfjöllunin hefur vakið hörð viðbrögð, sem meðal annars hafa teygt sig inn á þessa síðu. Hin gagnrýnu viðbrögð ganga út á, að hlutur þess manns sem fremstur stóð í þessari baráttu var fyrir borð borinn í umfjölluninni. Sá maður er Lúðvík Jósepsson, en hann gegndi stöðu sjávarútvegsráðherra á ögurstundu í deilunni og gekk harðast fram og af mestri staðfestu í að fá hana til lykta leidda.
Hér á síðunni reið fyrstur á vaðið í þessari umræðu, Guðmundur Brynjólfsson, með réttmætri og mjög þarfri ábendingu sbr. HÉR. Síðan kom ítarleg og efnisleg umfjöllun SB, sbr. HÉR og umhugsunarverð umjöllun eftir Hjört Hjartarson HÉR. Loks birtist grein eftir Hugin Þorsteinsson, sbr. HÉR. Þessar greinar skrifa menn sem vita hvað þeir syngja og hvet ég lesendur til þess að kynna sér þær. Eftir stendur sú spurning hvað vaki fyrir Morgunblaðinu. Var það ásetningur að þegja um hlut vinstrimannsins Lúðvíks Jósepssonar eða var þetta ef til vill bara aulaháttur?

Fréttabréf