Fara í efni

A JOYFUL OCCASION?

Þetta voru orð forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar þegar hann bauð George Bush eldri velkominn á Bessastaði í kvöld  í boði embættis síns og þar með íslensku þjóðarinnar: Gleðilegur viðburður.
Nú hef ég ekkert á móti því að fyrrverandi forseti Bandaríkjanna heimsæki Ísland og þess vegna líti við á Bessastöðum  ef um kunningsskap er að ræða með honum og  íbúum þar. Sjálfsagt er að taka vel á móti fólki, einnig þessum manni.

Mér finnst það hins vegar vera umhugsunarefni, sé það rétt skilið hjá mér, að forseti Íslands hafi boðið þessum manni sérstaklega til landsins. Það hlýtur þá að hafa einhverja táknræna merkingu. Og þar staldra ég við. Þessi fyrrum forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar, CIA og forseti Bandaríkjanna og vel að merkja faðir núverandi forseta er tákngervingur bandaríska valdakerfisins nú um stundir; kerfis sem er ábyrgt fyrir mestu hernaðaruppbyggingu sögunnar, blóðugri og ofbeldsfullri heimsvaldastefnu, stjórnarháttum, sem um margt sverja sig í ætt við fasima, pyntingum á föngum sem haldið er utan dóms og laga...
Fulltrúa þessa kerfis er nú – einmitt nú þegar heimurinn er að vakna til vitundar um hættuna, sem stafar af ráðandi öflum í Bandaríkjunum -  boðið sem sérstökum heiðursgesti að Bessastöðum. Hvers vegna í ósköpunum? Ef bjóða á kunnum Bandaríkjamanni til Íslands og að Bessastöðum, væri hægt að finna ótölulegan fjölda vísinda- og listamanna, baráttumanna fyrir mannréttindum og lýðræðislegum gildum í stað þess að velja fulltrúa hernaðar- og heimsvaldastefnu.

Það á að vanda gestavalið á Bessastöðum. Eðlilegast er að þangað komi gestir sem eru í forsvari fyrir þjóðir, stofnanir og samtök. Þegar sleppir formlegheitunum taka við hin persónulegu tengsl. Ef forseta Íslands langar til að fara í brúðkaup barna norræns þjóðhöfðingja þá fer hann það á eigin vegum, prívat og persónulega. Ef hann langar til að taka á móti föður Bandaríkjaforseta, þá gildir hið sama. Um leið og slíkt er gert í nafni embættis forseta Íslands er gesturinn orðinn á okkar vegum, íslensku þjóðarinnar og því eðlilegt að um málið sé fjallað í slíku samhengi.