Fara í efni

BEINUM LANDBÚNAÐARUMRÆÐUNNI Í UPPBYGGILEGAN FARVEG

Birtist í Morgunblaðinu 19.07.06.
Í byrjun árs skipaði ríkisstjórnin nefnd til þess að fjalla um matvælaverð og voru kallaðir til fulltrúar helstu hagsmunaaðila, þar á meðal Bændasamtakanna, ASÍ, BSRB, SA og Viðskiptaráðs.
Vegna aðkomu BSRB að nefndinni hef ég fylgst náið með starfi hennar en fulltrúi BSRB hefur upplýst stjórn samtakanna reglulega um gang mála.
Ég skal játa að frá upphafi þótti mér ástæða til að óttast að sjónarhorn nefndarinnar yrði of þröngt til þess að ná mætti breiðri samstöðu um aðgerðir til lækkunar matvælaverðs en ljóst var að sjónum yrði fyrst og fremst beint að innlendri matvöruframleiðslu og hvernig mætti þröngva henni til frekari "hagræðingar", og þá einkum með afnámi tolla. Minna yrði hirt um hvernig einokun og fákeppni á matvörumarkaði hefði áhrif á vöruverð og hvað væri þar til ráða.
Nú er það svo að nefndinni var ætlað að skila áliti fyrir mitt ár. Það tókst ekki. En þótt ekki hafi tekist að ná samkomulagi um sameiginlega niðurstöðu hefur það nú gerst að formaður nefndarinnar efnir til fréttamannafundar og leggur fram eigin álitsgerð. Í sumum fjölmiðlum er vísað í álitsgerð hans sem álits nefndarinnar í heild sinni. Svo er ekki og er ekki einu sinni svo gott að um meirihlutaálit sé að ræða. Fréttaflutningurinn af þessu starfi hefur því orðið nokkuð bjagaður og misvísandi.

Má ekki gefast upp við að ná sátt

Það er mjög mikilvægt að leiðir verði fundnar til þess að ná matvælaverði niður og má það ekki gerast að menn gefist upp í því starfi. Ekki hef ég nákvæmar tölur um fækkun bænda á undanförnum árum en eftir því sem ég kemst næst nemur fækkunin á milli 30 og 40 % á undangengnum hálfum öðrum áratug. Þessa fækkun myndu eflaust einhverjir segja endurspegla "hagræðingu" í greininni og má það til sanns vegar færa að því leyti, að ný tækni og nýjar aðstæður hafa kallað á breytta búskaparhætti með færri en stærri framleiðslueiningum. Þykir þeim sem til þekkja líklegt að langt sé frá því að séð sé fyrir endann á þessari þróun. Mikilvægt er að hafa hemil á henni og stýra henni á þann hátt að hún valdi ekki ónauðsynlegum skaða. Við skulum ekki gleyma því að fyrir barðinu á þessum breytingum verða heil byggðarlög og þúsundir einstaklinga, bæði þeir sem starfa í landbúnaðinum beint og einnig hinn mikli fjöldi sem starfar í úrvinnsluiðnaði og tengdum greinum. Enn er þess að geta, og þá síðast en ekki síst, að verðlagið eitt er ekki eini mælikvarðinn á matvöru heldur matvælaöryggi og gæði vörunnar. Óumdeilt er að íslensk landbúnaðarvara er í hágæðaflokki og væri það mikil skammsýni að grafa undan henni með því að veikja undirstöður hennar á markaði þar sem sveiflukennt verðlag réði úrslitum. Undirboð og tímabundnar verðsveiflur gætu haft varanlega neikvæð áhrif á íslenskan landbúnað, sem er þegar allt kemur til alls, smár og viðkvæmur og þarf á ákveðnum stöðugleika að halda. Íslenskur landbúnaður er miklu mikilvægari í menningarlegu, félagslegu og atvinnulegu tilliti en umræðan, eins og hún birtist tíðum þessa dagana, gefur tilefni til að ætla. Þröng verðlagsnálgun er í reynd gamaldags og skammsýnt viðhorf.

Gagnkvæm virðing

Þetta breytir því ekki að mikilvægt er að ná verðlagi matvöru niður og þar með verði á innlendri landbúnaðarvöru, sem þarf að vera samkeppnishæf við aðra framleiðslu. Til þess að takast megi að ná því takmarki að færa matvælaverðið niður þarf að vanda til verkanna. Þörf er á samstilltu átaki af hálfu framleiðenda, neytenda, stjórnvalda og ekki síst söulaðila. Hér dugir því enginn einleikur. Krafa neytenda í garð bænda og annarra aðila að þessu ferli er að þeir sýni samstarfsvilja og séu opnir fyrir skynsamlegum og sanngjörnum lausnum. Á móti hljóta neytendur og þá ekki síst verkalýðshreyfingin að hvetja til þess að komið verði fram við bændur og samtök bænda á sama hátt og við viljum að komið sé fram við samtök launafólks; að sjónarmið þeirra séu virt þegar um lífskjör þeirra er að tefla. Á þessum forsendum hefur BSRB talað fyrir mikilvægi þess að ná þjóðarsátt um landbúnaðarmálin. Ef okkur tekst að beina umræðunni um matvælaverð inn í slíkan farveg mun koma í ljós, að því er ég hygg, að hagsmunir bænda og launafólks fara saman.