Fara í efni

GRÓSKA Í LISTALÍFI

Krafturinn í íslenskum listamönnum er með ólíkindum. Á nánast öllum sviðum listalífsins eigum við á að skipa verulega færu fólki – í sumum tilvikum afburðalistamönnum. Hvað veldur þessari miklu grósku?

Ástæðurnar eru eflaust margar. Almennur áhugi á listum og menningu örvar ungt fólk til dáða. Gróskan elur þannig af sér grósku. Upp í hugann kemur sá mikli áhugi á skákíþróttinni, sem upp kom í landinu í kjölfar skákeinvígis þeirra Spasskys og Fichers, um miðjan áttunda áratug síðustu aldar, að ógleymdum áhuganum sem eldhugar samtímans á þessu sviði, Hrafn Jökulsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og fleiri, hafa kveikt með frumkvæði sínu. Ef við viljum setja þetta ferli í lengra sögulegt samhengi, þá horfum við til Friðriks Ólafssonar og hans samtíðarafreksmanna , sem við öll dáðum. Sennilega hefði heimsmeistaraeinvígi þeirra Spasskís og Fichers ekki verið háð hér ef áður hefði ekki verið plægður jarðvegur skáklistar/íþróttarinnar. Allt þetta fólk hefur plægt akur áhugans.

Eins er það í listinni. Áhugi almennings á listum, hvort sem um er að ræða tónlist, myndlist eða önnur listform, örvar listamennina til dáða. Það er umhugsunarefni hve ríkur áhugi er með þjóðinni á listalífi. Aðsókn að tónleikum og sýningum ber þessu vott.

En það er ekki nóg að kveikja áhugann með verðandi listamönnum. Hann verður að vísu til þess að hæfileikafólkið  finnst og er virkjað, en að sjálfsögðu þurfa hæfileikarnir að vera til staðar! Það er þarna sem ég hef staðnæmst í þönkum mínum; yfir því hve magnaðri sveit hæfileikafólks í listalífinu við eigum á að skipa. Á þetta vorum við sem sóttum tónleika í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar rækliega minnt í gær þegar Þorbjörn Björnsson, baritónsöngvari söng þar fyrir fullu húsi. Undirleikinn annaðist Jan Czajkowski. Þorbjörn er kornungur maður, fæddur 1978, en hefur að undanförnu dvalist við nám erlendis. Á tónleikunum í gær söng Þorbjörn listavel bæði ljóð og aríur. Hann sýndi dýpt og glettni þar sem við átti. Ekki velkist ég í vafa um að þar fer mikill hæfileikamaður. Ég heyrði einn tónleikagestanna muldra eftir tónleikana, að sennilega værum við að eignast nýjan stórsöngvara. Það held ég að séu orð að sönnu.