ÁHUGAVERÐ RÁÐSTEFNA UM SÁTTAFERLI Á ÁTAKASVÆÐUM
Föstudaginn 22. september verður haldin
ráðstefna í Hafnarfjarðarkirkju um "sáttaferli á átakasvæðum
heimsins með erlendum sáttasemjurum í fremstu röð". Í
fréttatilkynningu segir á meðal annars um fyrirlesara og
viðfangsefni : " Dr. Rodney Petersen forstöðumaður
Guðfræðistofnunarinnar í Boston, Boston theological
Institute og dr. Raymond Helmick S. J., Jesúítaprestur
og alþjóðlegur sáttasemjari til fjölda ára hafa þróað og beitt
árangursríkum aðferðum til sáttaumleitana á átakasvæðum m.a. á
Balkanskaga, Norður-Írlandi og í Landinu helga. Föstudaginn 22.
september nk. munu þeir flytja röð fyrirlestra á ráðstefnu sem
Kjalarnessprófastsdæmi og Hafnarfjarðarkirkja standa að um
friðarstarf og sáttaferli í safnaðarheimilinu Strandbergi.
Ráðstefnan hefst kl.09:45..."
Fyrir mitt leyti þykir mér þetta vera afar áhugavert viðfangsefni
og kemur þá fyrst upp í hugann sáttaferlið í Suður-Afríku sem
Desmond Tutu stóð í fararbroddi fyrir. Með sáttaferlinu tókst
Suður-Afríkumönnum að rjúfa vítahring hatursins sem einkennir
helstu samfélög á helstu átakasvæðum heimsins.
Að þessu viðfangsefni Desmonds Tutus vék ég í ræðu sem ég flutti að
morgni 1. maí árið 2005 í Grafarvogskirkju undir yfirskriftinni,
Á að bjóða hinn vangann? Þar segir m.a.:
"...Á okkar tímum sjáum við annan slíkan sendiboða í
suður-afríska biskupnum Desmond Tutu. Þjóð hans var kúguð og bræður
hans og systur þjáð og smáð, pyntuð og rænd og fangelsuð af
valdhöfum og handbendum þeirra. Þegar svo kúgararnir gáfust upp, þá
setti Tutu á laggirnar dómstól sem hét sættir og sannleikur. Allir
sem höfðu orðið fyrir ofsóknum gátu kært kúgara sína og dómstóll
sátta og sannleika réttaði í málinu. Þegar sannleikurinn hafði
komið í ljós, þá fór fram fyrirgefning og sættir.
Þetta er í raun bylting í mannkynssögunni.
Þetta er að bjóða hinn vangann, þetta er að treysta á
kærleikann..." ( Ræðan í heild sinni er hér, http://www.ogmundur.is/news.asp?id=652&news_ID=2171&type=one&menuid=
)
Eftrifarandi er fréttatilkynning um ráðstefnuna:
Sáttaferli á átakasvæðum heimsins.
Opin ráðstefna í Hafnarfjarðarkirkju
með erlendum sáttasemjurum í fremstu röð.
Dr. Rodney Petersen forstöðumaður Guðfræðistofnunarinnar í Boston, Boston theological Institute og dr. Raymond Helmick S. J., Jesúítaprestur og alþjóðlegur sáttasemjari til fjölda ára hafa þróað og beitt árangursríkum aðferðum til sáttaumleitana á átakasvæðum m.a. á Balkanskaga, Norður-Írlandi og í Landinu helga. Föstudaginn 22. september nk. munu þeir flytja röð fyrirlestra á ráðstefnu sem Kjalarnessprófastsdæmi og Hafnarfjarðarkirkja standa að um friðarstarf og sáttaferli í safnaðarheimilinu Strandbergi. Ráðstefnan hefst kl.09:45 með stuttri helgistund í Hafnarfjarðarkirkju en heldur svo áfram kl.10:00 í Hásölum Strandbergs. Fyrst fer fram kynning á félagslegu sáttaferli (social healing) en síðan verður fjallað um fjögur lykilhugtök í félagslegu sáttaferli í máli og myndum, erindum og umræðum: FYRIRGEFNINGU, SÁTTARGJÖRÐ, RÉTTLÆTI og SAMFÉLAG. Auk þess verður horft á ákveðið tilvik, a case study, í friðarferli. Ráðstefnan stendur yfir fram eftir degi en boðið verður upp á hádegismat í Ljósbroti Strandbergs. Ráðstefnan fer fram á ensku en stuttur úrdráttur á íslensku verður fluttur eftir hvern fyrirlestur. Ráðstefnan er haldin í boði prófastsdæmisins og er öllum opin sem láta sig varða málefni hennar. Óskað er eftir því að þátttaka sé tilkynnt til kirkjuþjóna í síma 555-1295, eða presta í síma 555-4166 eða 862-5877.
Fyrrahaust heimsóttu prestar úr Kjalarnessprófastsdæmi Guðfræðistofnuna í Boston og kynntu sér starfsemi hennar. Ráðstefnan í Strandbergi er ávöxtur af góðu samstarfi sem myndast hefur við stofnunina.