Fara í efni

EKKERT LEYNIMAKK – ÖLL SPILIN Á BORÐIÐ !

Á framhaldsfundi iðnaðarnefndar í dag kröfðust fulltrúar Landsvirkjunar þess, að því aðeins kynntu þeir nýtt arðsemismat Kárahnjúkavirkjunar fyrir þingnefndinni að þingmenn hétu því að þegja um upplýsingarnar ! Með þessu móti er greinilega verið að reyna að múlbinda alþingismenn og koma í veg fyrir að þeir geti talað opið um þessi mál. Ég sagði að þetta væri út í hött, það væri komið nóg af leynimakki, bæði þing og þjóð ættu kröfu á því að öll spil yrðu lögð á borðið. Fulltrúar Landsvirkjunar létu gagnrýni mína sem vind um eyru þjóta og fengu stuðning formanns iðnaðarnefndar, Birkis Jónssonar, í þessu efni. Ég sá mér þá ekki annað fært en víkja af fundinum og sagðist ekki myndu taka þátt í yfirhylmingu gagnvart þjóðinni því auðvitað er fyrst og fremst verið að halda upplýsingum leyndum gagnvart henni.

Að mínu mati er leynimakkið í tengslum við þessar framkvæmdir beinlínis orðið þjóðhættulegt. Það er gjörsamlega fráleitt og fullkomlega óásættanlegt að ekki geti farið fram opin lýðræðisleg umræða um alla þætti þessa máls.

Af sama toga hafa verið viðbrögð Landsvirkjunar og stjórnvalda gagnavart heimamönnum á Jökuldal og Héraði. Það er fyrst núna að efnt er til funda með þeim um áhættumat vegna framkvæmdanna og af fréttum af þessu fundarhaldi kemur berlega í ljós að heimamönnum finnst mikið á skorta að komið sé fram við þá á opinn og heiðarlegan hátt.
Nú er það að skýrast betur og betur hve illa hefur verið staðið að Kárahnjúkaframkvæmdunum. Fyrst er ákveðið að virkja, síðan er rannsakað. Það sem meira er - rannsóknir við þessa stærstu framkvæmdir Íslandssögunnar eru minni en við virkjanir á Íslandi á undangengnum áratugum! Enda er það svo að fram á þennan dag – í þann mund sem hleypa á vatni á lónið - eru að koma fram nýjar upplýsingar sem geta skipt máli varðandi öryggi stíflunnar og þar af leiðandi einnig arðsemismat hennar.

Sá tími er liðinn að forsvaranlegt sé að hlusta á talsmenn Landsvirkjunar skýra út fyrir okkur hvernig þeir fari að því að leiðrétta fyrri mistök sín. Nú verður ekki lengur undan því vikist að fá óháða aðila til þess að gera úttekt á öllum hliðum þessa máls, bæði þeim sem snúa að jarðfræðilegum þáttum, svo og áhrifum á umhverfi og efnahag. Fráleitt er annað en að fresta því að hleypa vatni í fyrirhugað lón fyrr en slík rannsókn hefur farið fram.

Ekkert leynimakk á rétt á sér í þessu máli. Krafan er: Öll spilin á borðið.