Fara í efni

FRAMSÓKNARFLOKKURINN OG "FYRIRTÆKI ÚTI Í BÆ"

Í fjölmiðlum hefur nokkuð verið fjallað um þá kröfu Landsvirkjunar, að þingmenn yrðu að undirgangast trúnað ef þeir ættu að fá upplýsingar um þær forsendur, sem Landsvirkjun byggði nýja arðsemisútreikninga sína á Kárahnjúkaframkvæmdunum á.
Eins og ég greindi frá í pistli hér á síðunni í gær vék ég af fundi iðnaðarnefndar Alþingis þegar formaður nefndarinnar, Birkir Jónsson, tók undir kröfu Landsvirkjunar um að þingmenn yrðu að heita því að þegja um þær upplýsingar sem gefnar yrðu á fundinum ef þeir á annað borð vildu fá eitthvað að vita.
Eftir að frá þessu var greint í fjölmiðlum hef ég orðið var við það í samræðum við fólk að krafa Landsvirkjunar vekur forundran. Menn spyrja hvort það sé ekki hlutverk Alþingis að veita framkvæmdavaldinu aðhald í öllum málum, hvað þá í þessari stærstu framkvæmd Íslandssögunnar. Fái menn ekki allar upplýsingar til að skoða í þaula og bera undir sérfróða aðila þá sé tómt mál að tala um að fram geti farið vitiborin upplýst umræða. Augljóslega sé verið að múlbinda þingmenn og kæfa alla umræðu. Í máli manna hefur réttilega verið bent á að við skyldum ekki gleyma því að þessar framkvæmdir eru á vegum fyrirtækja í almannaeign: Landsvirkjun er jú í eigu ríkisins, Reykjavíkurborgar og Akureyrar og allar framkvæmdir á hennar vegum eru á ábyrgð skattborgarans!!!

Þetta er öllum augljóst – nema náttúrlega Framsókn. Birkir Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, gegnir embætti formanns iðnaðarnefndar nú um stundir. Hann kom fram í fréttum og lýsti furðu á því að alþingismenn vildu upp á dekk gagnvart fyrirtæki úti í bæ með því að krefjast þess að það opni bókhald sitt gagnvart almenningi. Stundarkorn velti ég því fyrir mér hvort væri fyrirtækið úti í bæ, Alcoa eða Landsvirkjun. Ég komst að sömu niðurstöðu og klippari Sjónvarps, sem myndskreytti tilvísun Birkis til fyrirtækisins úti í bæ með merki Landsvirkjunar.
Látum vera þótt þingmanni Framsóknarflokksins finnist það vera upphlaup, eins og hann komst að orði,  þegar þess er krafist að leynimakki um arðsemisútreikninga verði hætt. Hitt fær mig til að staldra við og íhuga pólitískt hlutskipti Framsóknarflokksins þegar talsmenn flokksins eru nú orðnir svo haldnir einkavæðingarveikinni að stofnanir í almannaeign, og það meira að segja sjálf Landsvirkun, eru í þeirra augum fyrirtæki úti í bæ sem komi okkur ekki lengur við. Þótt Framsóknarflokkurinn hafi áform uppi um að einkavæða raforkugeirann þá er Birkir Jónsson kominn fram úr sjálfum sér, og okkur hinum, í tali sínu, því enn er Landsvirkjun ekki eins og hvert annað fyrirtæki á markaði, eins og hann komst að orði – hvað þá eitthvert fyrirtæki úti í bæ

En skyldi mönnum þykja það vera trúverðugir hagsmunagæslumenn almennings sem haga sér á þessa lund?
Íhaldið hefur þó vit á því að þegja.

Fréttir RÚV: http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=4257253/6  og
http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4284314/3