Fara í efni

UPPLÝSINGAFULLTRÚI HERSINS UPPLÝSIR - MEIRA EN RÍKISSTJÓRN ÍSLANDS GERIR


Eftir að NFS fréttastöðin gekkst í málið hefur upplýsingafulltrúi bandaríska hersins hér á landi  upplýst að búið sé að loka hinum herstjórnarlega þætti loftferðakerfis hersins hér á landi. Þetta þýðir að þótt ratsjárstöðvarnar séu enn til staðar er ekki lengur tekið við merkjasendingum þaðan. Enn er tekið á móti merkjasendingum til íslensku flugumferðarstjórnarinnar – sendingum sem þjóna almennri flugumferð. En hversu lengi? Íslensk stjórnvöld verða að svara því hvort um þetta hafi verið gerðir samningar og til hve langs tíma.
Slíkur hefur rolugangurinn verið, að hreinlega öllu er trúandi upp á ríkisstjórnina í þessu efni. Ár eftir ár flutti þingflokkur VG þingmál þar sem þess var krafist að gengið yrði til viðræðna um þessi efni við Bandaríkjaher því fyrirsjáanlegt væri að sá dagur rynni upp að bandarískur her hypjaði sig af landi brott. Menn börðu höfðinu við steininn og átti það við um alla flokka á þingi nema Vinsgtrihreyfinguna grænt framboð.
Ekki ætla ég að gefa mig út fyrir að vera neinn sérfræðingur á þessu sviði en eftir því sem ég fæ best skilið er það einkum tvennt sem ríkisstjórnin verður að upplýsa um:
1) Er búið að semja til framtíðar um notkun þess hluta loftferðakerfis Bandaríkjahers sem þjónar almennri flugumferð?
2) Hefur farið fram greining á því hversu mikilvægt það er að Íslendingar hafi á sinni hendi ýmsar upplýsingar sem koma úr hinum hernaðarlega hluta kerfisins, sem nú hefur verið lokað? Þar er einkum horft til björgunarhagsmuna og samkeppnshæfi Íslendinga í samkeppni við Skotland og Kanada um forræði og rekstur flugumferðarstjórnar á því svæði, sem við nú stýrum.
Getur verið að öll orka ríkisstjórnarinnar hafi farið í að einkavæða íslenska flugvelli og flugumferðarstjórn og að allur kraftur hafi verið þorrinn þegar að því kom að standa þurfti vörð um íslenska þjóðarhagsmuni?