STAKSTEINAR, MÁLFRELSIÐ OG MEIÐYRÐALÖGGJÖFIN

Birtist í Morgunpósti VG 02.10.06.
Í Staksteinum Morgunblaðsins í dag er fjallað um þá sem tóku þátt í báráttu fyrir herlausu Íslandi, það fólk sem tók þátt í Keflavíkurgöngum til að leggja áherslu á sjónarmið sín eða skrifaði og talaði fyrir friði og gegn vígbúnaði.

Um þessa einstaklinga og hvað fyrir þeim vakti segir m.a. í Staksteinum:

"Þeir gengu í þágu Stalíns og eftirmanna hans en Stalín var einn helzti fjöldamorðingi 20. aldarinnar.
Þeir gengu í þágu þeirra, sem hnepptu aðrar þjóðir í þrælkun.
Þeir gengu í þágu þeirra, sem myrtu verkamenn á götum úti í Berlín 17. júní 1953.
Þeir gengu í þágu þeirra, sem sendu skriðdrekana inn í Búdapest til þess að drepa saklaust fólk á götunum þar.
Þeir gengu í þágu þeirra, sem kæfðu Vorið í Prag í fæðingu.
Þeir gengu í þágu þeirra, sem drápu 10 milljónir manna í Úkraínu með hungursneyð af manna völdum.
Þetta voru hugsjónir herstöðvarandstæðinga. Svona þjóðfélag vildu þeir skapa á Íslandi."

Þetta eru kaldar kveðjur til Árna Björnssonar,Vigdísar Finnbogadóttur, Halldórs Laxness, Jakobínu Sigurðardóttur, Ragnars Stefánssonar, Jóhannesar úr Kötlum, Svövu Jakobsdóttur, Guðmundar Böðvarssonar, Guðrúnar Helgadóttur, Guðmundar Georgssonar, Jónasar Árnasonar, Gils Guðmundssonar, Birnu Þórðardóttur, Einars Ólafssonar, Ingibjargar Haraldsdóttur, Jóns Torfasonar, Kristínar Halldórsdóttur, Ragnars Arnalds…….. og allra hinna; listamannanna, stjórnmálamannanna, launafólks og mannréttindasinna, allra þúsundanna sem tóku þátt í baráttunni fyrir herlausu Íslandi, ýmist með þátttöku í Keflavíkurgöngum eða með öðrum hætti.

Ég hef aldrei verið gefinn fyrir beitingu meiðyrðalöggjafar - nema þá til að hrekja gróflega upplognar sakir. En á það ekki við í þessu tilviki?  


Fréttabréf