Fara í efni

RÚRÍ OPNAR AUGU


Ennþá situr í mér gjörningur Rúríar frá í sumar. Ekki bara vegna þess að hann byggði á hugmynd sem var afburðasnjöll – brilljant. Heldur kannski fyrst og fremst vegna þess að gjörningurinn hafði samfélagslega þýðingu. Hann breytti einhverju. Hann opnaði augu okkar. Auðvitað höfum við öll heyrt um Drekkingarhyl við Lögberg á Þingvöllum. Hylinn þar sem konum var drekkt. Sennilega höfum við líka heyrt og lesið um hve margar þær voru og hver dauðasök þeirra var. Yfirleitt tengdist hún því að eignast barn utan hjónabands. Sagnfræðingar og rithöfundar hafa vissulega gætt hinar dauðadæmdu konur lífi með frásögnum sínum, en þegar upp er staðið hafa þær í hugum þjóðarinnar fyrst og fremst verið eins konar mengi, fjarlægur hópur, tölfræði.
Svo kom Rúrí með gjörninginn sinn. Helgi Snær Sigurðsson greinir þannig frá í Morgunblaðinu 6. september síðastliðinn: "Þegar klukkan var rétt farin að ganga sjö hófst svo gjörningurinn með því að Rúrí gekk út í vatnið og kafari sótti dularfullan hlut á botn hylsins og færði listakonunni. Í ljós kom að þar var poki sem bundið var fyrir. Pokann færði Rúrí upp á börur með hjálp fjögurra listakvenna sem síðan tóku til við að klippa pokann. Inni í honum voru kvenmannsföt og skór. Þetta var endurtekið þar til börurnar voru orðnar átján, jafnmargar þeim konum sem drekkt var í hylnum á 17. öld. Undir lok gjörningsins var börunum raðað á flöt skammt frá hylnum og Rúrí las upp nöfn kvennanna, hvaðan þær voru og fyrir hvað þær voru teknar af lífi með svo grimmilegum hætti. Öllum var þeim drekkt fyrir að hafa orðið þungaðar utan hjónabands."
Rúrí nefndi gjörning sinn Tileinkun, og enn vitna ég í Helga Snæ Sigurðsson: "Rúrí sagði að gjörningi loknum að með honum vildi hún heiðra minningu þeirra kvenna sem drekkt var fyrir það eitt að verða þungaðar og ala börn. Nafn Drekkingarhyls hafi borið á góma við undirbúning að sýningu og orðið henni svo hugfast að hún hafi orðið að fremja gjörninginn, enda sé sú saga sem tengist hylnum skelfileg. Í pokunum væru táknrænar líkamsleifar kvennanna og sagðist Rúrí vonast til þess að hafa með gjörningnum hreinsað mannorð kvennanna, veitt þeim uppreisn æru. Þarna hafi verið hræðilegt réttarkerfi á ferð og margar spurningar vakni þegar þessar aftökur eru skoðaðar, til að mynda hvað hafi orðið um börn kvennanna því þær hafi ekki verið líflátnar fyrr en eftir að þær ólu þau. Samkvæmt lögum þess tíma hafi hjú ekki mátt eiga börn, aðeins bændur."
Yfirleitt er samtíminn blindur á sjálfan sig. Gjörningur Rúríar minnti okkur á blindu liðinna tíma, ólýsanlega heimsku og grimmd, forræðishyggju og ofbeldi. Ég var ekki viðstaddur þennan gjörning en svo sterkt orkaði frásögnin og lýsingin á honum á mig  að mér þótti með honum beint að mér og mínum samtíma spurningu; ágengri spurningu. Erum við ef til vill eins blind á misréttið sem viðgengst okkar á meðal eins og 17. aldar forverar okkar voru? Er ef til vill bjálki í okkar auga sem byrgir okkur sýn á samtímann?  Gjörningur Rúríar er tileinkaður konum sem urðu fyrir ofbeldi fyrr á tíð. En hann er jafnframt áskorun um að litast um í samtímanum með opin augu. Gjörningur Rúríar heppnaðist. Hann opnaði á okkur augun. Ljósmyndirnar tók Friðrik Örn Hjaltested
Sjá heimasíðu Rúríar