STYRMIR OG EGILL
Fagna ber þeirri umræðu sem hefur verið
að glæðast að undanförnu um hvert stefni í íslensku þjóðfélagi - og
þá einnig hvert við viljum stefna með samfélag okkar. Skrif
hér á síðunni um "þotuliðið" í bönkunum, yfirgang þess og
tilætlunarsemi, urðu mörgum tilefni til skrifa og umræðna. Sigurður
Einarsson, forsvarsmaður KB banka vissi strax hvað klukkan sló og
skildi réttilega að hér voru á ferðinni ábendingar, sem ættu erindi
í umræðu samtímans.
Sigurður vildi greinilega taka á málinu á dýptina, nokkuð sem vart
verður sagt um umfjöllun Egils Helgasonar í Silfri Egils á Stöð 2 í
dag.
Egill tekur þann kost að halda sig á grunnslóð, ef svo má að
orði komast, þegar hann fjallar um
"jafnaðarsamfélagið" í upphafi þáttar síns í dag. Egill
fór víða um Reykjavíkurborg í leit að táknrænni myndskreytingu með
texta sínum. Birtist hann til dæmis fyrir framan barnaskóla og
býsnaðist yfir því að gáfuð börn og "heimsk" skyldu þurfa
að eiga samleið þar innan dyra.
Sá sem þetta skrifar fékk eftirfarandi trakteringu: "Ögmundur
Jónasson vill líka jafna að ofan. Hann telur best að bankarnir fari
úr landi með gróða sinn. Honum líst betur á að allir séu jafn
blankir en að sumir séu ríkir. Verst að þetta hefur verið reynt
áður og gafst ekki sérlega vel. Hugmynd kommúnista um jöfnuð var að
enginn mætti eiga neitt, allt skyldi vera ríkiseign. Stundum eru
Vinstri grænir ekki komnir sérlega langt frá upprunanum."
Sannast sagna finnst mér að Egill mætti vera ögn örlátari á
vitsmuni sína en hann stundum er í þætti sínum. Ég tala nú ekki um
þegar í hlut á maður, sem telur sig þess umkominn að tala niður til
fólks sem hann dæmir úr leik sökum "heimsku".
Það er vandasamt verk að stýra þjóðfélagsumræðunni, leggja út af
orðum manna og setja þau í samhengi sem er gefandi fyrir framhald
umræðunnar.
Kannski Egill Helgason ætti að temja sér að lesa meginmálið betur,
til dæmis hjá mönnum á borð við Noam Chomsky, sem mig rámar í að
hann hafi einhverju sinni slegið um sig með. Hann gæti þá lært
sitthvað um fjölmiðla, talsmenn og valdsmenn.
Ef Egill var göslandi í yfirborðinu má segja að Styrmir
Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins, hafi haldið sig á djúpsævi í
Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld. Í prýðilegu bréfi sem barst til
síðunnar eftir Kastljósþáttinn frá Ólínu, vekur hún athygli á því
hve umhugað Styrmi virðist vera að setja á dagskrá umræðu um þá
andhverfu jafnaðarsamfélagsins sem er að birtast okkur hér á landi
þessi misserin í formi vaxandi misréttis, fákeppni og einokunar.
Ólína hvetur til þess að við hendum þennan bolta á lofti og bætum
heldur í, tökum einnig til umfjöllunar enn einn fylgifisk
misréttissamfélagsins, kúgunina. Ólína segir í þessu bréfi m.a.um
Kastljósviðtalið við Styrmi:
"Hann er að tala um þá sem hafa farið með völdin síðustu
fimmtán ár. Hann er með sínu lagi að draga upp mynd af
samfélagsbreytingunum sem hér hafa orðið og byggjast á afnámi
hafta, einavæðingu og byltingu í skattkerfi landsins þeim í hag sem
mega, eiga og erfa. Þessi mannanna verk, breytingarnar á skattkerfi
fyrirtækjanna, setning laganna um einkahlutafélög, breytingar á
skattlagningu tekna sem vaxtaorkur, verð- og hlutabréf skila
eigendum sínum og sala á eignum ríkisins langt undir markaðsvirði,
allt þetta hefur fætt af sér einokun og valdasamþjöppun. Í
skálaræðum tala stjórnmálamenn um að aðgerðirnar sem hér er rætt um
hafi verið almennar og gripið til þeirra til að tryggja almannahag.
Landstjórnin síðustu fimmtán ár hefur skilað okkur samfélagi sem
einkennist af einokun, valdasamþjöppun og seljendum vöru og
þjónustu sem okra á neytendum án þess að stjórnvöld hafi beitt
valdi sínu til að koma í veg fyrir þessar afleiðingar. "
Og enn segir: "Ég bíð eftir að ritstjórinn fjalli beint
um eina afleiðingu þeirra mannanna verka sem nú er að grafa um sig
í íslensku samfélagi, kúgunina...í orðum ritstjórans felst að mínu
áliti hvatning til að taka til umræðu aðgerðir og afleiðingar sem
hugsanlega eru að skapa hér samfélag sem engin okkar hefur kosið
sér - ekki einu sinni þeir sem af takmarkaðri útsýn misstu úr
böndunum það sem þeir töldu sig vera að gera réttast. Viðtalið við
ritstjórann kallar á upplýsta, fordómalausa umræðu um
framtíðina.."
Undir þessi orð vil ég taka.