Fara í efni

Á EKKI AÐ HLUSTA Á LÝÐHEILSUSTÖÐ? FJÖLMIÐLAR KYNNI SÉR MÁLIÐ !

Fyrir rúmum þremur árum var sett hér á laggirnar stofnun sem ber heitið Lýðheilsustöð og starfar hún samkvæmt lögum sem um hana gilda. Á meðal verkefna Lýðheilsustöðvar er að vera stjórnvöldum "til ráðgjafar um stefnumótun á sviði lýðheilsu…"

Nú reynir á hvort stjórnvöld vilji hlíta þessari ráðgjöf. Fyrir Alþingi liggur nefnilega frumvarp sem Lýðheilsustöð þykir í einu veigamiklu efni stríða gegn manneldissjónarmiðum. Þetta er frumvarp sem gengur út á lækkun vörugjalda og virðisaukaskatts á matvæli. Flestir hafa fagnað þessu frumvarpi að öðru leyti en því sem lýtur að lækkun virðisaukaskatts á gosdrykki. Það er einmitt þessi þáttur sem Lýðheilsustöð gagnrýnir.

Gosdrykkir lækka mest !

Í bréfi sem efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis barst í dag frá Lýðheilsustöð vegna þessa frumvarps segir meðal annars:
"Það vekur athygli að gosdrykkir og sykraðir svaladrykkir eru ekki undanskyldir niðurfellingu vörugjalds, líkt og önnur sætindi. Niðurstaðan er því sú að þessir drykkir eru meðal þeirra matvara sem koma til með að lækka hlutfallslega mest þegar bæði kemur til lækkun á virðisaukaskatti úr 24,5% og niðurfelling á vörugjaldi (8 kr/lítra).

Samræmist ekki manneldissjónarmiðum

Í bréfinu segir að "þessar aðgerðir samræmast ekki manneldissjónarmiðum sem ættu að vera lögð til grundvallar breytingar sem þessar. Hins vegar er jákvætt að vatn á flöskum skuli vera undanþegið vörugjaldi. Slíkt gjald ætti aftur á móti að vera áfram á ölllum drykkjum með viðbættum sykri.

Íslendingar og offituvandinn

Lýðheilsustofnun bendir á að Íslendingar hafi ekki farið varhluta af offitufaraldrinum sem aukist stöðugt í öllum löndum Evrópu sem og heiminum. "Yfir helmingur fullorðinna og fimmti hluti barna hér á landi er yfir kjörþyngd. Þó að ýmsar jákvæðar breytingar hafi orðið á mataræði hér á landi á undanförnum árum hafa einnig orðið neikvæðar breytingar. Neysla gosdrykkja er gífurleg og drekka unglingsstrákar mest af gosi og sykruðum svaladrykkjum, eða að meðaltali tæpan lítra á dag, og 55% af sykri í fæði þeirra kemur úr gosdrykkjum (Landskönnun á mataræði 15-19 ára, 2002). Þótt unglingsstúlkur drekki minna er neysla gosdrykkja of mikil hjá flestu ungu fólki. Mikið magn gosdrykkja og annarra sykraðra svaladrykkja hefur verið tengt við aukna tíðni ofþyngdar og offitu, ásamt öðrum þáttum, því er mikilvægt að reyna að takmarka neyslu þessara orkuríku drykkja....

Neysluhvetjandi fyrir ungt fólk

Lýðheilsustöð vísar í rannsóknir og segir að þær sýni að neyðsluvenjur mismunandi hópa séu mjög mismunandi. Rannsóknir bendi til þess að verðbreytingar á fæðu hafi áhrif á neyslu og séu verðlækkanir neysluhvetjandi. "Vert er að benda á að rannsóknir sýna að verðnæmi gosdrykkja er töluverð og verðlækkun þeirra hefur mest áhrif á neyslu þeirra þjóðfélagshópa sem almennt er erfitt að ná til með heilsuhvetjandi skilaboðum. Í því samhengi má nefna að unglingar eru mjög næmir fyrir verðbreytingum. Einnig ber að geta þess að næmni þeirra sem neyta mikils magns gosdrykkja er töluverð. Verðbreyting hefur hins vegar minni áhrif á þá sem drekka sykraða gosdrykki í hófi. Hér er því um að ræða aðgerð sem mun hafa neysluhvetjandi áhrif á unglingana okkar og þá sem nú þegar neyta mikils magns gosdrykkja."

Eitt hér, annað þar?

Í bréfi sínu vísar Lýðheilsustöð á yfirlýsingar og sáttmála sem stjórnvöld gerist aðilar að á alþjóðavettvangi um að leggja rækt við manneldissjónarmið. "Því skýtur skökku við að á sama tíma skuli stjórnvöld hér á landi leggja til breytingar á sköttum og gjöldum sem leiða til lækkunar á verði sykraðra gosdrykkja og þar með væntanlega um leið aukinnar neyslu þeirra."