HVERJIR HAFA METNAÐ GUNNAR?


Í Morgunblaðinu 21. desember greinir frá samstarfssamningi sem hefur verið undirritaður milli Lindaskóla í Kópavogi, fyrirtækjanna Norvik hf, Ránarborgar hf og bæjarsjóðs Kópavogs, um 17 milljóna króna fjármagn til viðbótarkennslu við skólann. Hér er um að ræða kennslu í ensku og íþróttum. Í tilkynningu frá Lindaskóla segir að markmiðið sé að við upphaf skólaársins 2009-2010 verði 35 stunda kennsla á viku orðin að veruleika í 1.-4. bekk.

Bæjarstjórinn í Kópavogi, Gunnar Birgisson, hefur lýst mikilli ánægju með þetta fyrirkomulag sem byggir á því að fyrirtæki leggi til peninga og fylgist með þróun verkefnanna.: "Ég tel mikilvægt að fyrirtækin taki þátt í menntun barnanna okkar, eins og þau taka í auknum mæli þátt í stuðningi við íþróttastarf, menningu, listir og svo framvegis," segir Gunnar. Fram kemur í frétt Morgunblaðsins að bærinn leggur til um þriðjung þess fjár sem rennur til verkefnisins en afgangurinn kemur frá skólanum og fyrirtækjunum. Skólarnir í bænum séu með sjálfstæðan fjárhag og hafi þeir óskað eftir fjárframlögum einkafyrirtækja. Bæjarstjórinn í Kópavogi kveðst vonast til þess að slík verkefni fari í gang í fleiri skólum í framtíðinni. "Menn hafa mikinn metnað og reyna að auka menntunina og hækka þjónustustigið í skólunum," segir hann í fréttaviðtali við Morgunblaðið.

Þykir mönnum þetta vera æskileg þróun? Er það æskilegt að fyrirtækin taki með beinum hætti "þátt í menntun barnanna okkar, eins þau taka í auknum mæli þátt í stuðningi við íþróttastarf, menningu, listir og svo framvegis," svo vitnað sé beint í orð Gunnars Birgissonar, bæjarstjóra í Kópavogi.
Á undanförnum árum hefur stefna stjórnvalda verið sú að lækka skatta við fyrirtæki en hvetja þau síðan til að koma með "frjáls" fjárframlög til lista, menningar, líknarstarfsemi og nú menntunar skólabarna. Skyldu menn hafa hugsað til enda hvað þetta þýðir fyrir lýðræðið í landinu? Í stað þess að skattar séu innheimtir og lýðræðislega kjörnir fulltrúar ráðstafi þeim síðan í þágu samfélagsins eru það nú fjármagnseigendurnir sjálfir sem ákvarða hver skuli menntast og hvernig, hvaða listamaður skuli hljóta náð, hvaða safn verði sett á vetur og hvaða velferðarstarfsemi kemst af. Með því að flytja fjárveitingarvaldið frá almenningi og fulltrúum hans til fyrirtækja og fjármálamanna er grafið undan lýðræðinu og við færð nær byrjunarreit 20. aldarinnar þar sem Bogesen kaupmaður réð lögum og lofum.

Lýsir þetta miklum metnaði? Þetta kann að lýsa metnaði fjármálamanna en varla miklum metnaði stjórnmálamanna sem hafa verið kjörnir til að gæta almannahags.

Fréttabréf