VIÐSKIPTARÁÐIÐ, EINKAFRAMKVÆMDIN OG FRÉTTASTOFA SJÓNVARPS


Í fréttum Ríkissjónvarpsins í kvöld var okkur sagt að einkaframkvæmd væri ákjósanlegur kostur, þar stæðist allt upp á punkt og prik, viðhald væri miklu betra hjá prívataðilum en hjá hinu opinbera og í einkaframkvæmdinni væri ekki um að ræða framúrkeyrlsu frá áætlunum. Heimild fréttastofunnar var Viðskiptaráð sem áður hét Verslunarráð. Sama Verslunarráðið og hamast hefur um árabil í áróðri fyrir því að almannaþjónustan verði einkavædd.
Í framhaldi af lofgjörð um ágæti einkaframkvæmdar var haft eftir Viðskiptaráðsmönnum að vænta mætti frekari einkaframkvæmdar á komandi árum og var þar m.a. vísað til vegaframkvæmda. Hvernig væri nú að fréttastofa Sjónvarps legðist í sjálfstæða rannsókn á kostum og göllum einkaframkvæmdar. Til dæmis mætti kanna nýlega skýrslu Ríkisendurskoðunar um einkaframkvæmd í vegagerð þar sem þessi kostur er ekki talinn ákjósanlegur fyrir skattgreiðendur. Hér má ekki gleyma því að Vegagerðin byggir nánast allar framkvæmdir sínar á útboðum og reiðir sig þannig á markaðinn. Einkaframkvæmd felur það hins vegar í sér að veita einkaaðila beinan eða óbeinan aðgang að skatthirslum almennings. Hvergi hefur verið gengið lengra á þessari braut en í Bretlandi. Þar hefur einkaframkvæmd reynst afar illa og hafa sérstaklega verið brögð af "framúrkeyrslum"! Í Bretlandi hefur og myndast eftirmarkaður með skóla og aðrar velferðarstofnanir þar sem einkaframkvæmdarsamningar ganga kaupum og sölum!
Á þessari heimasíðu hefur talsvert verið fjallað um rannsóknir á þessu efni og vísa ég hér í slíka umfjöllun þar sem kastljósi er beint að skýrslu frá bresku verkalýðssamtökunum Unison og umræðu í breska Ríkisútvarpinu BBC. Ég þykist vita að fréttastofa Sjónvarps vilji ekki gerast ógagnrýnin málpípa Viðskiptaráðs. Þess vegna má fréttastofan ekki láta hér staðar numið heldur verður hún að brjóta þetta mál til mergjar.
Sjá HÉR

Fréttabréf