VILJA LÖGMENN SEGJA SIG ÚR LÖGUM VIÐ SAMFÉLAG SITT?

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur komist  að þeirri niðurstöðu að það hafi verið stjórnarskrárbrot af hálfu löggjafans að taka til baka launahækkun sem Kjaradómur hafði ákvarðað dómurum fyrir rúmu ári síðan. Svo er að skilja að réttinum hafi þótt vera í lagi að afnema hækkanir til annarra embættismanna, þingmanna og ráðherra en hvað varðar dómarana snúist málið um sjálfstæði dómstólanna. Að þessari niðurstöðu hafa semsé lögmenn komist um kollega sína. Fyrir þessu má eflaust færa rök að því gefnu að menn telji að löggjafinn hafi svipt dómstólana sjálfstæði með því að láta dómara sæta sömu meðferð og aðra sem heyrðu undir Kjaradóm. Í mínum huga verða dómarar hins vegar ekki aðskildir frá öðrum sem heyrðu undir dóminn og væri fullt tilefni að spyrja í kjölfar niðurstöðu Hérðsdóms hvort sú ágæta stofnun sé ekki þar með að rýra sjálfstæði Alþingis sem með lögum breytti úrskurði Kjaradóms. Í mínum huga byggir niðurstaða Héraðsdóms á grundvallarmisskilningi. Lagabreytingin á sínum tíma var ekki sértæk, hún beindist ekki að dómurum sérstaklega, hún var almenns eðlis og beindist að öllum sem undir Kjaradóm heyrðu. Þetta hefur því ekkert með sjálfstæði dómstóla að gera.
Dómarar hafa lengi reynt að spyrða saman kjarabaráttu sína og hugmyndir um sjálfstæði dómstóla. Þeir hafa sagt sem svo að því hærri laun sem þeir hafi þeim mun efnahagslega sjálfstæðir verði þeir og þar af leiðandi ólíklegri til að láta undan efnahagslegum þrýstingi. Þessa röksemd hef ég aldrei keypt. Nær lagi er að ætla að því hærri laun sem eru í boði þeim mun líklegra sé að gráðugir einstaklingar ráðist til starfa í þessi störf sem í önnur störf sem gefa vel í aðra hönd. Gráðugt fólk er svo aftur móttækilegra fyrir spillingu en hófstilltara fólk. Ergó, því nær sem dómarar eru settir til borðs með almenningi í landinu, því líklegra er að þeir séu hófstilltir einstaklingar, sanngjarnir gagnvart öðrum og fyrir vikið ólíklegri að reyna að hygla sjálfum sér.

Það má vissulega deila um þá ákvörðun löggjafans að breyta niðurstöðu Kjaradóms á sínum tíma þótt Héraðsdómur taki sérstaklega fram að um þetta geri hann ekki ágreining. En að með ákvörðun sinni hafi Alþingi rýrt sjálfstæði dómstólanna þykir mér sem áður segir harla langsótt. Við skulum ekki gleyma því að fyrrverandi skipan þótti mörgum - þar á meðal þeim sem þetta ritar - aldrei við hæfi því dómarar komu sjálfir að tilnefningu fulltrúa í Kjaradóm og höfðu þannig óbein tengsl við þann sem úrskurðaði um þeirra eigin kjör.
Ég hef verið þeirrar skoðunar að þessi mál eigi öll að vera á hendi Alþingis sem fer með löggjafar- og fjárveitngarvaldið. Þingmenn eiga að fjalla um eigin kjör og þeirra fáu embættismanna sem standa utan stéttarfélaga, þar með talda dómara. Alþingi tekur jú ákvörðun um kjör fjölmennra hópa, öryrkja, atvinnulausra og annarra sem þurfa að reiða sig á almannaþjónustuna. Ágætt er að kjósendur fái yfirsýn yfir það hvernig alþingismenn forgangsraða. Alþingismenn er síðan hægt að draga til ábyrgðar í kosningum. Þetta er lykilatriði. Það verður hins vegar aldrei gert með dómara. Hvers vegna ættu þeir að geta sagt sig úr lögum við samfélag sitt? Hvers vegna ættu þeir að vera heilagar kýr? Og á meðal annarra orða; er ekki svoldið skondið hve mikinn skilning lögmenn hafa á kjörum lögmanna?

Fréttabréf