Fara í efni

FYLGIST MEÐ AFSTÖÐU ALÞINGISMANNA TIL RÚV !

Birtist í Morgunblaðinu 15.01.07
Háeffun Ríkisútvarpsins er án efa eitt umdeildasta frumvarp ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili. Frumvarpið hefur komið fram í ýmsum myndum og er nú orðið sem stagbætt tötraflík. Þær breytingar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu hafa engan veginn slegið á gagnrýnisraddir. Grundvallaratriðin eru þessi:

Í fyrsta lagi er óeðlilegt að taka starfsemi sem rekin er í skjóli ríkisvalds og með lögþvinguðum gjöldum undan þeim lögum og reglum sem settar hafa verið um slíka starfsemi og byggjast m.a. á jafnræði, gagnsæi og opinni stjórnsýslu.

Í öðru lagi er það skref aftur á bak en ekki framávið að styrkja í sessi pólitíska yfirstjórn yfir stofnun á borð við Ríkisútvarpið. Aðkoma löggjafarsamkomunnar er fullkomlega eðlileg en ekki á þann hátt sem stjórnarmeirihlutinn vill. Ef frumvarp ríkisstjórnarinnar nær fram að ganga kemur útvarpsstjóri til með að verða skipaður af útvarpsráði sem endurspeglar stjórnarmeirihlutann hverju sinni. Þessi pólitískt skipaði útvarpsstjóri fær síðan einræðisvald yfir öllu mannahaldi og allri dagskrárgerð í útvarpi allra landsmanna!

Í þriðja lagi er hrikalegt til þess að hugsa að samþykkt verði enn eina ferðina frumvarp um hlutafélagavæðingu sem augljóslega er sniðið að því markmiði að efla forstjóravald og skerða réttindi starfsmanna almennt. Aðferðir forstjóravaldsins í Matís ohf. undanfarna daga ættu að verða víti til varnaðar. Samtök starfsfólksins mótmæla að vonum aðförinni en engu að síður leyfa alþingismenn stjórnarmeirihlutans sér að segja að starfsmannamálin séu í góðu lagi! Í þessu sambandi má benda á að samningsbundin ákvæði um aðkomu starfsmanna að stjórn Ríkisútvarpsins til áratuga eru að engu höfð án þess svo mikið að rætt sé um þetta efni sérstaklega við þau samtök sem samningana gerðu!

Í fjórða lagi verður aldrei of oft ítrekað að um Ríkisútvarpið þarf að ríkja víðtæk sátt. Þá sátt er ríkisstjórnin að rjúfa með frumvarpi sínu. Lágmarkskrafa hlýtur að vera sú að málinu verði frestað fram yfir næstu alþingiskosningar sem eru eftir aðeins fjóra mánuði. Þá gefst þjóðinni altént tækifæri til að ræða málið við frambjóðendur og þá ekki síst frambjóðendur Framsóknarflokksins sem svikið hafa gefin fyrirheit sín um RÚV.

Staðhæfing um að hlutafélagavæðing Ríkisútvarpsins sé skref til framfara er loddaraskapur af verstu gerð. Þetta er aðferð til að ræna fólk réttindum, koma almannastofnun í skjól undan eðlilegu aðhaldi og draga úr lýðræðislegri aðkomu. Hlutafélagavæðingin byggist á botnlausri trú á markaðshyggju og ágæti forstjóravalds.

Ýmsir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lýst eindregnum vilja til að selja Ríkisútvarpið í hendur einkaaðila. Við atkvæðagreiðslu á fyrri stigum lýsti einn þingmaður því yfir að hann styddi frumvarpið því það væri spor í þá átt að selja Ríkisútvarpið og þar með fullkomna einkavæðinguna. Afstaða slíkra manna er að mörgu leyti rökrétt, skiljanleg og heiðarleg. Hlutafélög hafa vissulega þann kost að hægt er að selja hluti. Hlutafélög hafa einnig þann kost að hluthafar geta veitt aðhald á hluthafafundum. Ef hins vegar ekki stendur til að selja eins og margir stjórnarþingmenn láta í veðri vaka um RÚV þannig að kostir hlutafélagsformsins kæmu ekki til með að nýtast, til hvers þá? Er það bara til að skerða réttindi starfsmanna?

Það verður fylgst með því hvernig alþingismenn greiða atkvæði um þetta frumvarp ef það á annað borð kemur til atkvæðagreiðslu á Alþingi.