MINNISBÓK KRISTÍNAR
Ekki leikur á því nokkur vafi að
netmiðlarnir gegna sívaxandi hlutverki í fjölmiðlun og opinberri
umræðu á Íslandi. Sérstaklega á þetta við um yngri kynslóðir en
þeim er orðið tamt að fara með reglubundnum hætti inn á netmiðla og
bloggsíður í leit að upplýsingum og áhugaverðri umræðu. Akurinn er
orðinn æði víðfemur og uppskeran eftir því. Auðvitað eru gæði
uppskerunnar mismunandi. Sumt er gott, vandað og vel ígrundað annað
er síðra. Margir hafa valið þann kost að setja inn á heimasíður
sínar tengla á áhugaverðar síður. Enn sem komið er hef ég ekki
tekið þann kost. Hins vegar hef ég stundum vísað á heimasíður sem
mér þykja góðar. Þannig er ástæða til að mæla með "Minnisbók"
Kristínar Halldórsdóttur, fyrrverandi alþingiskonu
og framkvæmdastjóra VG en þessa "bók" er að finna á vefsíðu hennar:
www.kristin.is.
Í nýlegum pistlum fjallar Kristín Halldórsdóttir um nýjan
bæjarstjóra á Akureyri, fyrirhugað álver í Helguvík og komandi
alþingiskosningar. Þar veltir hún vöngum yfir því hvort eldri
borgarar svo og Framtíðarlandið komi til með að bjóða fram í
kosningunum í vor. Þar segir m.a.:
... Þessa dagana og væntanlega næstu vikur er áhugaverðast að
sjá hvernig málin þróast hjá eldri borgurum og ekki síður hjá
Framtíðarlandinu. Talsverður áhugi virðist á framboði hjá hvorum
tveggja hópum, en líka mikil andstaða og alls óvíst hvað verður
ofan á. Minni spenna er þó í kringum eldri borgara og harla óljóst
hvað þar er að gerast. ...Meiri eldur virðist kraumandi hjá félögum
í Framtíðarlandinu og það raunar á báða bóga. Þar eru ákafir
framboðssinnar, en þar er líka mjög mikil andstaða sem byggist ekki
síst á því að sérstakt framboð kæmi hugsanlega verst við þá sem
mest og best hafa staðið vörð um náttúruna og barist fyrir vernd
hennar og virðingu á Alþingi. Það væri afar óheppileg og í rauninni
sorgleg niðurstaða. Mér er auðvitað málið skylt og þætti það
afskaplega miður ef þessi yrði niðurstaðan..." (sjá nánar í
Minnisbókinni á www.kristin.is ).