HLÍF ÓSKAÐ TIL HAMINGJU Á 100 ÁRA AFMÆLI


Verkalýðsfélagið Hlíf í Hafnarfirði var stofnað í byrjun febrúar árið 1907 og eru því liðin hundrað ár frá stofnun þess. Á vef Starfsgreinasambandsins segir af þessu tilefni: "Félagið var stofnað í þeirri bylgju nýrrar hugmyndafræði um sameiningu verkafólks, sem hófst hér á landi fyrir rúmri öld. ,,Þeir dagar eru runnir upp, þeir tímar, þau ár og sú öld, að með öllu er óþarft að láta svínbeygja sig, hver sem í hlut á og við hvern sem er skipt," sagði einn af frumkvöðlunum um nauðsyn verkalýðssamtaka á þeim tíma. Þessi sannindi eiga enn við."
Undir þessi orð skal svo sannarlega tekið jafnframt því sem þessu merka félagi eru færðar árnaðaróskir á aldarafmælinu. Afmælið ætti að verða okkur tilefni til að minnast alls þess fólks sem á tuttugustu öldinni lagði grunn að því velferðarkerfi sem við búum við í dag. Þar gegndi verkalýðshreyfingin sínu mikla hlutverki. Aldarafmæli Hlífar ætti líka að verða okkur tilefni til að leiða hugann að því að verkalýðsbarátta snýst ekki aðeins um krónur og aura. Hún snýst um mannlega reisn, að enginn maður þurfi að bogna vegna félagslegrar stöðu sinnar; að allt fólk geti borið höfuðið hátt í samskiptum við annað fólk, "hver sem í hlut á og við hvern sem er skipt..."
Sjá nánar HÉR    

Fréttabréf