Fara í efni

MORGUNSTUND GEFUR GULL Í MUND


Í gærmorgun gerði Bjarni Ármannsson ágæt viðskipti sem hann hagnaðist bærilega á. Mbl.is sagði hæversklega frá undir fyrirsögninni "Bjarni Ármannsson kaupir og selur."
Fréttin var þessi: "Fyrir opnun markaða í dag nýtti Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitni, rétt sinn samkvæmt kaupréttarsamningi dagsettum 1.3.2002 við bankann um að kaupa 15 milljón hluti í Glitni á verðinu 2,81 og seldi bankanum aftur á verðinu 28,2. Keypti Bjarni bréfin því á 4,15 milljónir króna en seldi þau aftur á 423 milljónir. Söluhagnaður hans nemur 380,85 milljónum króna. Eftir viðskiptin á Bjarni Ármannsson enga kauprétti í bankanum, en hann á 521.560 hluti og aðilar fjárhagslega tengdir honum eiga 233.420.693 hluti. Fjöldi eigin hluta í eigu Glitnis banka hf. er óbreyttur eftir viðskiptin eða 156.473.728 hlutir."

Eftir þessi viðskipti er eignarhlutur forstjóra Glitnis og tengdra aðila í bankanum 234 milljónir hluta. Verðmæti þess eignarhlutar er yfir sex milljarðar króna miðað við gengi gærdagsins.

Bjarni Ármannsson fékk í eigin vasa þessa morgunstund, á morgni þriðjudagsins 27. febrúar, 380 milljónir og 850 þúsund krónur. Það tæki einstakling með 250 þúsund króna mánaðartekjur 126 ár að vinna sér inn þessa upphæð. Það er starfsævi þriggja einstaklinga. Afkastamikill maður Bjarni. Þetta eru þó smámunir í samanburði við eignarhlut hans og félaga hans í bankanum upp á meira en sex milljarða. Duglegir strákar, Bjarni og félagar. Til hamingju með daginn, eða þannig…