SAMGÖNGURÁÐHERRA Á AÐ ÞJÓNA ÞJÓÐINNI


Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, fagnar því ákaft í fjölmiðlum í dag "að einkafyrirtæki sýni einkaframkvæmd í vegagerð áhuga." Í viðtali við Morgunblaðið lýsir ráðherra fögnuði sínum yfir því að fyrirtækið Norðurvegur ehf hefur lýst áformum um að gera upphækkaðan heilsársveg norður yfir Kjöl. Ætlunin er að rukka vegferendur. Í fréttum í gærkvöldi var einn forsvarsmanna fyrirtækisins spurður um verðlagið, hve hátt veggjald fólki yrði gert að greiða fyrir leyfi til að aka á þessum nýja vegi. Forsvarsmaðurinn sagði að fyrirtækið væri sér vel meðvitað um að ef það gerðist of "gráðugt" gæti það fælt viðskiptamenn frá sér. Hvort þjóðinni yrði afhentur vegurinn til eignar var þá spurt. Það taldi talsmaður Norðurvegar ehf af og frá.
Nú er það ekkert nýtt að fyrirtæki vilji græða á einkaframkvæmd í vegagerð. Það er hins vegar tiltölulega nýtilkomið að Ríkisendurskoðun hafi uppi varnaðarorð um slíkt ráðslag en ráða mátti af skýrlsu frá embættinu á seinni hluta síðasta árs að ekki væri þetta skattborgaranum til góða.

Þá er komið að Sturlu Böðvarssyni, samgönguráðherra. Hverra hagsmuna telur hans sig eiga að gæta? Hagsmuna þjóðarinnar eða fjárfesta?
Augljóst er að hann horfir frekar til fjárfestanna því í ljós hefur komið að hann hefur þegar óskað eftir því við Vegagerðina að hún hefji viðræður við Norðurveg ehf um könnun á umhverfisþáttum og rekstrarkostnaði við upphækkaðan Kjalveg! En það er ekki nóg með að samgönguráðherra gangi erinda fyrirtækisins á kostnað þjóðarhagsmuna. Hann fer út yfir öll leyfileg lýðræðismörk með því að ljá þessu yfirleitt máls  á síðustu metrum kjörtímabilsins. Færa má fyrir því gild rök að umboð ráðherra sé hreinlega þrotið.

Á þessu máli eru margar hliðar. Þær snúa m.a. að því hvar valdið eigi að liggja í þjóðfélaginu, hjá lýðræðislega kjörnum fulltrúum eða fjárfestum. Svo blindir eru margir fjölmiðlar að þeir ræða nú þessa absúrd hugmynd eins og hún sé komin frá þeim sem valdið hefur. Þeir spyrja ekki um umboð einkafyrirtækis til að skipuleggja samgöngur á Íslandi. Þeir velta því fyrir sér hvort Norðurvegur ehf ætti ef til vill frekar að einbeita sér að Sprengisandi en Kili.

Síðan er það umhverfisþátturinn. Honum gerir leiðarahöfundur Morgunblaðsins myndarleg skil í dag og hafi hann þökk fyrir. Í leiðaranum segir m.a. : "Það er enginn efnislegur munur á því, hvort miðhálendi Íslands er eyðilagt með virkjanaframkvæmdum, vegaframkvæmdum eða hótelbyggingum. Það gildir einu hver framkvæmdin er. Framkvæmdir sem hafa áhrif á hina ósnortnu náttúru miðhálendisins eiga ekki að vera til umræðu...Átökin um vegina um hálendið eru að hefjast. Núna. Þetta er síðasta orustan um hin ósnortnu víðerni milli jöklanna, þar sem hvítir jöklar, svartir sandar og fagurbláar ár kallast á. Verði malbikaður vegur lagður um Kjöl er orustan töpuð."

Fréttabréf